63. fundur

25.02.2021 10:30

63. fundur neyðarstjórnar Reykjanesbæjar – fjarfundur haldinn þann 25. febrúar 2021 kl. 10:30

Viðstaddir: Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri, Friðjón Einarsson formaður bæjarráðs, Halldóra G. Jónsdóttir aðstoðarmaður bæjarstjóra, Regína Fanný Guðmundsdóttir fjármálastjóri, Unnar Steinn Bjarndal bæjarlögmaður, Guðlaugur Sigurjónsson sviðsstjóri umhverfissviðs, Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs, Þórdís Ósk Helgadóttir forstöðumaður Súlunnar, Jóna Hrefna Bergsteinsdóttir deildarstjóri þjónustu og þróunar, Halldór Karl Hermannsson hafnarstjóri, Guðrún Magnúsdóttir lýðheilsufulltrúi, María Gunnarsdóttir forstöðumaður barnaverndar, Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir verkefnastjóri fjölmenningarmála, Kristinn Óskarsson mannauðsstjóri, Theodór Kjartansson vinnuverndar- og öryggisfulltrúi, Einar Trausti Einarsson yfirsálfræðingur, Ingibjörg Bryndís Hilmarsdóttir leikskólafulltrúi, Sigurgestur Guðlaugsson verkefnastjóri atvinnu- og viðskiptaþróunar. Fundargerð ritaði Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir.

1. Nýjar reglugerðir um takmörkun á samkomum vegna farsóttar

Ný reglugerð um samkomutakmarkanir tók gildi þann 24. febrúar 2021 og er gildistími hennar til og með 17. mars nk. Fjöldatakmarkanir fara úr 20 í 50 manns en allt að 200 manns mega vera í söfnum og verslunum og áfram gilda 2 metra fjarlægðarmörk og grímuskylda. Á viðburðum þar sem gestir sitja mega allt að 200 manns vera viðstaddir og fjarlægðarmörk eru 1 metri að uppfylltum skilyrðum. Þetta gildir einnig um íþróttaviðburði. Á sund- og baðstöðum og heilsu- og líkamsræktarstöðvum mega gestir vera 75% af leyfilegum hámarksfjölda, þó að hámarki 50 manns í hverju rými. Á veitingastöðum er leyfilegur hámarksfjöldi í rými 50 manns, heimilt er að taka á móti nýjum viðskiptavinum til kl. 22:00 en þeir skulu allir hafa yfirgefið staðinn fyrir kl. 23:00. Sú breyting hefur átt sér stað að fyrirkomulag íþróttakennslu barna og ungmenna fellur nú undir almenna reglugerð um takmörkun á samkomum þannig að sömu reglur gilda um íþróttastarf innan skóla og utan.

Með því að smella hér má skoða frétt um nýja reglugerð um samkomutakmarkanir á vef Stjórnarráðsins

Ný reglugerð um takmörkun á skólastarfi tók einnig gildi 24. febrúar og gildir hún til og með 30. apríl 2021. Almennt verður heimilaður hámarksfjöldi nemenda 150 í hverju rými og blöndun milli sóttvarnahólfa heimil á öllum skólastigum, einnig í háskólum. Regla um nándarmörk verður 1 metri í stað tveggja og gildir það jafnt milli nemenda og starfsfólks. Aðeins þarf að bera grímur ef ekki er unnt að virða eins metra regluna. Eins og áður eru nemendur í leikskólum og grunnskólum undanskildir reglum um fjarlægðarmörk og grímunotkun og engar fjöldatakmarkanir gilda um nemendur í leikskólum. Á öllum skólastigum öðrum en á háskólastigi verður foreldrum, aðstandendum og öðrum utanaðkomandi heimilt að koma inn í skólabyggingar, að uppfylltum reglum um sóttvarnir. Heimilt verður að halda viðburði í skólum í samræmi við almennar reglur um samkomutakmarkanir.

Með því að smella hér má skoða frétt um nýja reglugerð um takmörkun á skólastarfi á vef Stjórnarráðsins

2. Hólfaskipting í ráðhúsi Reykjanesbæjar

Þar sem fjöldatakmarkanir eru komnar í 50 manns verður hólfum í ráðhúsinu fækkað í tvö, gult á neðri hæð og í kjallara og blátt á efri hæð og í risi. Vinnuverndar- og öryggisfulltrúa er falið að útfæra það nánar og senda út tilkynningu til starfsmanna.

Sú breyting að almannavarnarstig vegna heimsfaraldurs hafi verið fært af neyðarstigi á hættustig þann 12. febrúar sl. hefur ekki áhrif á fyrirkomulag starfsstöðva barnaverndar og félagsþjónustu sem er skipt upp til að tryggja sem best órofa starfsemi komi upp smit.

3. Hættustig vegna jarðskjálfta

Almannavarnir lýstu í gær yfir hættustigi á Reykjanesi, höfuðborgarsvæðinu og í Árnessýslu vegna jarðskjálftahrinu á Reykjanesi. Fólk er hvatt til að kynna sér varnir og viðbúnað vegna jarðskjálfta á heimasíðu almannavarna.

Með því að smella hér má skoða tilkynningu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra um hættustig vegna jarðskjálftahrinu

Einnig má finna upplýsingar um viðbrögð við jarðskjálftum á heimasíðu Reykjanesbæjar.

Með því að smella hér má skoða upplýsingar um viðbrögð við jarðskjálftum á vef Reykjanesbæjar


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10:55.