65. fundur

05.03.2021 15:00

65. fundur neyðarstjórnar Reykjanesbæjar – fjarfundur haldinn þann 5. mars 2021 kl. 15:00

Viðstaddir: Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri, Halldóra G. Jónsdóttir aðstoðarmaður bæjarstjóra, Regína Fanný Guðmundsdóttir fjármálastjóri, Unnar Steinn Bjarndal bæjarlögmaður, Guðlaugur Sigurjónsson sviðsstjóri umhverfissviðs, Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs, Helgi Arnarson sviðsstjóri fræðslusviðs, Þórdís Ósk Helgadóttir forstöðumaður Súlunnar, Jóna Hrefna Bergsteinsdóttir deildarstjóri þjónustu og þróunar, María Gunnarsdóttir forstöðumaður barnaverndar, Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir verkefnastjóri fjölmenningarmála, Kristinn Óskarsson mannauðsstjóri, Theodór Kjartansson vinnuverndar- og öryggisfulltrúi, Gunnar Víðir Þrastarson verkefnastjóri markaðsmála, Sigurgestur Guðlaugsson verkefnastjóri atvinnu- og viðskiptaþróunar. Fundargerð ritaði Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir.

1. Hættustig vegna jarðskjálfta

Búast má við áframhaldandi jarðskjálftakviðum þó hrinan hafi róast eitthvað. Á fundi vísindaráðs almannvarna í gær kom fram að óróapúlsinn á miðvikudag hafi verið merki um hraðan gang kvikunnar frekar en væntanlegt gos. Engin merki sjást núna um að kvikan sé að nálgast yfirborð eða safnast fyrir á fleiri stöðum.

Fræðslusvið:

Fundað var með grunn- og leikskólastjórum í dag og unnir rammar að neyðaráætlunum í samstarfi við vinnuverndar- og öryggisfulltrúa. Áætlanir verða unnar áfram í næstu viku. Verið að skoða leiðir til að koma skilaboðum til foreldra á íslensku, ensku og pólsku. Þegar áætlanir fyrir skólana verða tilbúnar verða settar inn upplýsingar á vef Reykjanesbæjar og á vefi skólanna.

Sálfræðingar á fræðslusviði hafa útbúið hagnýtt efni fyrir foreldra undir yfirskriftinni „Að takast á við óvissutíma“. Tilgangur efnisins er að veita foreldrum hjálpleg ráð sem geta nýst þeim til að styðja við börnin sín á óvissutímum.

Með því að smella hér má skoða frétt á vef Reykjanesbæjar um stuðning við börn á óvissutímum

Velferðarsvið:

Unnið er að því að uppfæra neyðaráætlun fyrir Hæfingarstöð og gera áætlanir fyrir aðrar stofnanir í samstarfi við vinnuverndar- og öryggisfulltrúa. Gert er ráð fyrir að áætlanir verði tilbúnar í næstu viku.

Aðrar stofnanir:

Rýmingaráætlun fyrir ráðhús verður tilbúin á næstu dögum. Unnið er að áætlunum fyrir menningarhús.

Aðgerðastjórn almannavarna:

Engin af þeim sviðsmyndum sem almannavarnir vinna nú með gerir ráð fyrir að til rýmingar komi. Búið er að senda kort af Reykjanesbæ til almannavarna með skiptingu íbúafjölda á litakóðuð hverfi. Útbúa þarf lista yfir þá einstaklinga sem þurfa aðstoð ef til rýmingar kæmi en einnig þarf að upplýsa þá einstaklinga um að þeir hringi eftir aðstoð ef sú staða kemur upp.

Þó svo að ekki sé gert ráð fyrir að til rýmingar komi á næstunni er nauðsynlegt að neyðar- og rýmingaráætlanir séu til staðar ef til þess kæmi í framtíðinni.

Vakin er athygli á fréttum á vef Reykjanesbæjar þar sem fram koma upplýsingar varðandi jarðhræringar og eldgos. Þar eru einnig tenglar á upplýsingar á ensku og pólsku.

Með því að smella hér má skoða frétt á vef Reykjanesbæjar um mikilvægar upplýsingasíður varðandi jarðhræringar
Með því að smella hér má skoða frétt á vef Reykjanesbæjar með upplýsingum um eldgos 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15:25.