24.03.2021 17:00

67. fundur neyðarstjórnar Reykjanesbæjar – fjarfundur haldinn þann 24. mars 2021 kl. 17:00

Viðstaddir: Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri, Friðjón Einarsson formaður bæjarráðs, Regína Fanný Guðmundsdóttir fjármálastjóri, Unnar Steinn Bjarndal bæjarlögmaður, Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs, Helgi Arnarson sviðsstjóri fræðslusviðs, Þórdís Ósk Helgadóttir forstöðumaður Súlunnar, Jóna Hrefna Bergsteinsdóttir deildarstjóri þjónustu og þróunar, María Gunnarsdóttir forstöðumaður barnaverndar, Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir verkefnastjóri fjölmenningarmála, Kristinn Óskarsson mannauðsstjóri, Theodór Kjartansson vinnuverndar- og öryggisfulltrúi, Gunnar Víðir Þrastarson verkefnastjóri markaðsmála, Haraldur Axel Einarsson grunnskólafulltrúi, Ingibjörg Bryndís Hilmarsdóttir leikskólafulltrúi, Halldór Karl Hermannsson hafnarstjóri, Guðrún Magnúsdóttir lýðheilsufulltrúi. Fundargerð ritaði Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir.

1. Hertar aðgerðar vegna COVID-19

Hertar reglur um sóttvarnarráðstafanir á landsvísu taka gildi á miðnætti í kvöld. Grunn-, framhalds-, tónlistar- og háskólum verður lokað frá og með morgundeginum og þar til hefðbundið páskafrí tekur við. Unnið verður að reglum um fyrirkomulag skólahalds að loknu páskafríi á næstu dögum. Söfn og aðrir opinberir staðir mega taka á móti að hámarki 10 manns í rými. Tveggja metra reglan verður áfram í gildi og reglur um grímuskyldu óbreyttar.

Að öðru leyti verða helstu takmarkanir sem hér segir:

 • Almennar fjöldatakmarkanir 10 manns og ná til allra sem fæddir eru 2014 eða fyrr.
 • Trú- og lífsskoðunarfélög mega taka á móti 30 gestum við athafnir. Þeir skulu skráðir með nafni, kennitölu og símanúmeri en þurfa ekki að sitja í númeruðum sætum. Gestum er skylt að nota andlitsgrímur og tryggja skal 2 metra regluna. Hámarksfjöldi í erfidrykkjum, fermingarveislum og sambærilegum viðburðum er 10 manns.
 • Sund- og baðstaðir lokaðir.
 • Heilsu- og líkamsræktarstöðvar lokaðar.
 • Íþróttir inni og úti, jafnt barna og fullorðinna, sem krefjast meiri nálægðar en 2 metra eða þar sem hætta er á snertismiti vegna sameiginlegs búnaðar, eru óheimilar.
 • Sviðslistir og sambærileg starfsemi, svo sem bíó, er óheimil.
 • Skemmtistaðir, krár, spilasalir og spilakassar lokaðir.
 • Ökunám og flugnám með kennara óheimilt.
 • Veitingastaðir mega hafa opið til kl. 22, með að hámarki 20 gesti í rými sem allir skulu skráðir og fá afgreiðslu í sæti sem eru númeruð. Vínveitingar skal bera til sitjandi viðskiptavina. Heimilt er að taka á móti nýjum gestum til kl. 21.00.
 • Verslanir mega taka á móti 5 einstaklingum á hverja 10 m2 að hámarki 50 manns. 20 starfsmenn mega vera í sama rými og viðskiptavinir. Tveggja metra nándarregla og grímuskylda.
 • Starfsemi hársnyrtistofa, snyrtistofa og sambærileg starfsemi verður áfram heimil.

Fræðslusvið

Leikskólar mega starfa með 2 metra nálægðartakmörkunum milli starfsfólks. Ekki skulu fleiri en 10 fullorðnir einstaklingar vera í hverju rými. Viðvera foreldra innan leikskólabygginga verður takmörkuð.

Grunnskólar verða lokaðir, svo og félagsmiðstöðvar, frístundaheimili og tónlistarskólar.

Sundstaðir verða lokaðir og íþróttaiðkun takmörkuð.

Velferðarsvið

Gert er ráð fyrir að óbreytt starfsemi verði að mestu á starfsstöðvum velferðarsviðs sem þjónusta fatlað og aldrað fólk þar sem margir þjónustunotendur hafa þegar fengið bólusetningu að fullu og starfsmenn sína fyrri bólusetningu. Þó hafa notendur og starfsmenn Bjargarinnar ekki verið bólusettir. Því verður Björginni lokað frá og með morgundeginum og áhersla lögð á að veita þjónustu í gegnum síma og fjarfundabúnað. Skrifstofur velferðarsviðs á Tjarnargötu 12 og Nesvöllum eru opnar en íbúar hvattir til að nýta sér þjónustugáttina Mitt Reykjanes, tölvupósta og síma. Dregið verður úr viðtölum á skrifstofum eins og kostur er.

Súlan

Bókasafnið verður lokað. Duus safnahús og Hljómahöll verða opin og gætt verður vel að sóttvörnum og fjöldatakmörkunum. Einhverjir starfsmenn byggðasafns og listasafns verða í fjarvinnu ásamt hluta af starfsmönnum í Gömlu búð en að öðru leyti verður gætt að fjarlægðarmörkum og sóttvörnum starfsmanna.

Farið verður í herferð á samfélagsmiðlum þar sem hvatt verður til útiveru og hreyfingar.

Verið er að skoða leiðir til þess að miðla menningu, t.d. viðtölum við listamenn, streymi frá viðburðum og miðlun á ýmsum fróðleik.

Ráðhús

Ráðhúsinu verður aftur skipt upp í 5 svæði og verður sama fyrirkomulag og síðast þegar 10 manna fjöldatakmörkun var í gildi. Þjónustuver verður opið. Matsalur verður lokaður en matur sendur á svæðin frá mötuneyti.

Með því að smella hér má skoða frétt á vef stjórnarráðsins um hertar sóttvarnaraðgerðir

Með því að smella hér má skoða frétt á vef stjórnarráðsins um breytingar á skólastarfi til og með 31. mars

Með því að smella hér má sjá blaðamannafund ríkisstjórnar Íslands þar sem hertar sóttvarnaraðgerðir voru kynntar

Með því að smella hér má sjá blaðamannafundinn með pólskri túlkun


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17:30.