31.12.2021 10:00

75. fundur neyðarstjórnar Reykjanesbæjar – fjarfundur haldinn þann 31. desember 2021 kl. 10:00

Viðstaddir: Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri, Helgi Arnarson sviðsstjóri fræðslusviðs, Guðlaugur H. Sigurjónsson sviðsstjóri umhverfissviðs og Gunnar Víðir Þrastarson verkefnastjóri markaðsmála. Fundargerð ritaði Kjartan Már Kjartansson.

1. Upphaf skólastarfs eftir áramót

Helgi sagði frá fundi sem mennta- og barnamálaráðherra boðaði til þann 22. desember sl. Fundarefnið var staða skólanna í heimsfaraldri. Í gær, 30. desember, var svo haldinn annar fundur með fulltrúum stéttarfélaganna en fræðslustjórar voru ekki boðaðir á þann fund. Í framhaldi af þeim fundi ákváðu Almannavarnir höfuðborgarsvæðisins, í samráði við skólayfirvöld, að fyrsti skóladagur eftir jólafrí verði skipulagsdagur í grunn- og leikskólum, frístundastarfi og tónlistarskólum.

Neyðarstjórn Reykjanesbæjar samþykkir fyrir sitt leyti að sami háttur verði hafður á í Reykjanesbæ og að fyrsti skóladagur eftir jólafrí (ýmist 3. eða 4. janúar hjá grunnskólum) verði skipulagsdagur. Samkvæmt óstaðfestum heimildum eru allt að 16 starfsmenn í einum skóla ýmist í sóttkví eða einangrun og er mikilvægt fyrir stjórnendur og starfsmenn að fá svigrúm til að endurskipuleggja skólastarf vegna þessa.

Tilkynning þessa efnis verður send foreldrum í dag, 31. desember 2021 og birt á vefnum í kjölfarið. Því miður gefst ekki tækifæri til að þýða tilkynninguna á önnur tungumál.

2. Vinnusóttkví

Nýjar reglur um vinnusóttkví taka gildi á hádegi á gamlársdag. Sóttvarnalæknir og almannavarnir hafa gefið út uppfærðar leiðbeiningar um hvenær er heimilt að beita vinnusóttkví.

Heimild til vinnusóttkvíar á eingöngu við þegar atvinnurekendur telja mjög brýna þörf fyrir vinnuframlag starfsmanns á starfsstöð atvinnurekanda, ekki er með góðu móti hægt að leysa þau verkefni með öðrum hætti og mögulegt er að uppfylla nauðsynlegar sóttvarnarráðstafanir samkvæmt leiðbeiningum sóttvarnalæknis og reglum þessum. Óheimilt er að nýta vinnusóttkví ef starfsmaður er í beinni þjónustu við viðskiptavini t.d. í verslunum eða veitingastöðum. Atvinnurekendum og einstaklingum er gert að útfæra sjálfir framkvæmd vinnusóttkvíar á hverjum stað. Sóttvarnalæknir og almannavarnir koma ekki að framkvæmd eða gerð sértækra leiðbeininga nema í undantekningatilfellum. Vinnuveitandi heldur skrá yfir þá starfsmenn sem í vinnusóttkví eru og sendir þann lista á vinnusottkvi@logreglan.is.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10:40.