26.04.2022 13:00

80. fundur neyðarstjórnar Reykjanesbæjar – fjarfundur haldinn þann 26. apríl 2022 kl. 13:00

Viðstaddir: Kjartan Már Kjartansson formaður, Halldóra G. Jónsdóttir aðstoðarmaður bæjarstjóra, Helgi Arnarson sviðsstjóri fræðslusviðs, Guðlaugur Helgi Sigurjónsson sviðsstjóri umhverfissviðs. Fundargerð ritaði Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir.

1. Gátlisti fyrir neyðarstjórn

Lögð fram drög að gátlista sem neyðarstjórn skal hafa til hliðsjónar þegar taka þarf ákvarðanir svo tryggja megi sem best samfelldan rekstur við yfirvofandi vá, slys eða annan atburð sem getur haft áhrif á starfsemi sveitarfélagsins.

Neyðarstjórn vísar gátlistanum til afgreiðslu bæjarráðs.

2. Greining á áhættu og áfallaþoli – námskeið almannavarna

Námskeið á vegum Almannavarna ríkislögreglustjóra, Greining á áhættu og áfallaþoli, er haldið í þessari og næstu viku og taka þrír starfsmenn Reykjanesbæjar þátt.

Fyrir liggur að öll sveitarfélög verða að fara í mikla vinnu við að greina áhættu og áfallaþol sveitarfélagsins og skila niðurstöðum annars vegar inn á sérstakan vef Almannavarna ríkislögreglustjóra og hins vegar í formi skýrslu um greininguna. Ljóst er að um umfangsmikla vinnu verður að ræða a.m.k. fyrstu misserin og síðan viðhald og uppfærslur eftir því sem aðstæður breytast. Þar sem um mjög sérhæfða vinnu er að ræða, sem fyrir langflest sveitarfélög er ný og framandi, leggur Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra til að sveitarfélög nýti sér ráðgjöf sérfræðinga sem finna má á verkfræðistofum en tilnefni eða feli sjálf einhverjum starfsmanni verkefnastjórn og utanumhald og skipi stýrihóp.

3. Þemavika Almannavarna

Fimmtudaginn 28. apríl verður haldin ráðstefna Almannavarna „Við erum öll almannavarnir“ fyrir ráðuneyti, stofnanir, sveitarfélög og eigendur mikilvægra innviða. Í framhaldi fer af stað þemavika Almannavarna sem fjallar um eigin viðbúnað hvers og eins og vitund íbúa um hvers vegna við erum öll almannavarnir. Almannavarnir óska eftir að fá sveitarfélög landsins í lið með sér til hvetja íbúa til að kynna sér eigin viðbúnað og það efni sem sveitarfélögin bjóða upp á sem tengist almannavörnum. Þemavikan stendur til 5. maí.

4. Í kjölfar heimsfaraldurs

Nú hefur öllum takmörkunum vegna heimsfaraldurs Covid-19 verið aflétt og starfsemin óðum að færast í eðlilegt horf. Samt hafa orðið breytingar sem gera má ráð fyrir að verði varanlegar, til dæmis fjarfundir, nálægðartakmörk, möguleg hólfaskipting húsnæðis o.fl.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 13:30.