86. fundur

10.02.2024 12:30

86. fundur neyðarstjórnar Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 og í fjarfundabúnaði þann 10. febrúar 2024 kl. 12:30

Viðstödd: Halldóra G. Jónsdóttir aðstoðarmaður bæjarstjóra, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir formaður bæjarráðs, Guðlaugur H. Sigurjónsson sviðsstjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs, Helgi Arnarson sviðsstjóri fræðslusviðs, Jón Haukur Baldvinsson markaðsstjóri, Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs, Kristinn Óskarsson mannauðsstjóri, Einar Snorrason öryggisfulltrúi, Hilma Sigurðardóttir verkefnastjóri fjölmenningarmála, Halldór K. Hermannsson sviðsstjóri atvinnu- og hafnarmála, Unnar S. Bjarndal bæjarlögmaður, Þórdís Ó. Helgadóttir sviðsstjóri menningar og þjónustusviðs, Regína Guðmundsdóttir sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs og Hreinn Á. Kristinsson deildarstjóri eignaumsýslu. Fundargerð ritaði Halldóra G. Jónsdóttir.

1. Staðan að morgni 10. febrúar 2024

Hjáveitulögn sem var búið að tengja í gær og veitt var inn á seinnipartinn gaf sig í gærkvöldi.

Almannavarnir og HS Orka undirbúa nú lagningu nýrrar hjáveitulagnar fyrir heitt vatn yfir nýja hraunið við Njarðvíkuræðina. Nóttin var nýtt til að hefja efnisöflun og skipuleggja flutninga á því. Lagður verður vegur yfir nýja hraunið og er vegagerð þegar hafin. Suðustöðvar verða settar upp sitt hvorum megin hrauntungunnar og unnið á vöktum. Talið er að leggja þurfi um 600 metra af nýrri lögn. Þegar er byrjað að keyra nýju lagnaefni á staðinn. Framkvæmdin mun taka nokkra daga og enn er of snemmt að áætla verklok.

2. Staðan hjá HS – veitum

Páll Erland forstjóri og Jóna Hrefna Bergsteinsdóttir mannauðsstjóri frá HS Veitum mættu á fundinn.

• Sýndu greiningu fyrir allar stofnanir Reykjanesbæjar til að sjá hversu sterk heimtaugin væri, hversu mikið álag væri á henni við fulla starfsemi og hvað var þá eftir fyrir fulla rafkyndingu. HS Veitur munu senda okkur gögnin.

• Margir að bæta við sig hitagjöfum. Snýst um hvert heimili. Nægt rafmagn að berast að dreifistöðinni en hvert heimili þarf að passa sig svo ekki slái út í nágrenninu. Fyrirtæki eru á öðru dreifikerfi. Verið að vakta allar dreifistöðvar en þar eru ekki vandamálin heldur úti í kerfinu. Stóð aðallega yfir um kvöldmatarleytið. Áfram þarf að brýna fyrir fólki að spara rafmagn. Vandamálið snýst um að heimili eru ekki gerð fyrir rafmagnskyndingu. Gott ef veitingastaðir geta haldið úti starfsemi til að draga úr rafmagnsnotkun á heimilum.

3. Fréttir af fundi AST (Aðgerðastjórn Almannavarna) kl. 11.00

• Svæðið komið á neyðarstig.

• Verið að útbúa upplýsingarpakka fyrir íbúa.

• Nú er ljóst að lögn fór í sundur undir hrauninu og í raun á versta stað. Þegar er hafin viðgerð en nú stendur til að leggja hjáveitu ofan á nýja hraunið. Gera má fyrir 7-10 daga heitavatnsleysi. Unnið að viðgerð allan sólarhringinn.

• Ekki þarf að hafa áhyggjur af símkerfinu í rafmagnsleysi þar sem það er búið að styrkja það kerfi.

• Rafmagnið er ekki vandamál heldur flutningur þess. Það fór háspennustrengur í Dalshverfi í gærkvöldi vegna álags. Unnið er að viðgerð.

• Unnið er að því að koma fleiri rafstöðvum á svæðið til að efla kerfið þar sem helst þarf.

• Álagið á bænum var samt nokkuð gott fyrir utan Njarðvík, tæpt í gamla bænum.

• 95 % húsnæðis með snjallmæla og geta HS veitur sent á aðila sem eru að nota of mikið rafmagn um að fara betur með.

4. Staðan á eignum sveitarfélagsins

Vel gekk í gær að tæma snjóbræðslulagnir. Möguleiki að ekki hafi náðst að bjarga tveimur en það kemur í ljós með vorinu. Umsjónarmenn fasteigna og forstöðumenn þeirra virkjaðir í að fylgjast vel með sínum eignum og gera ráðstafanir í samráði við umhverfissvið.

Gengur erfiðlega að halda hita á stórum rýmum eins og íþróttahúsum og Stapa. Unnið að því að redda fleiri stærri hitablásurum.

5. Skerðing á starfsemi sveitarfélagsins næstu daga

Dagurinn í dag fer í að meta hvaða starfsemi verður hægt að halda úti næstu viku. Ekki útilokað að við getum haldið úti skólastarfi. Markmiðið að senda út eitthvað til íbúa um þjónustuna næstu daga fyrir lok dags.

Velferðarsvið mun funda kl. 15.00.
Menntasvið mun funda kl. 15.00 og 15.30.

6. Önnur mál.

Almannavarnir munu halda upplýsingafund vegna neyðarástandsins á Suðurnesjum í beinu streymi. Þar munu sitja fyrir svörum auk Almannavarna, forsvarsmenn HS veitna og HS orku og Guðlaugur Þór orkumálaráðherra.

Mikilvægt að samræma skilaboð og aðgerðir allra sveitafélaga á Suðurnesjum. Munum skerpa á því með Vogum og Suðurnesjabæ.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 14:15.