14. fundur

27.03.2023 14:00

14. fundur öldungaráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Nesvöllum þann 27. mars 2023 kl. 14:00

Viðstaddir: Borgar Jónsson formaður, Karítas Lára Rafnkelsdóttir, fulltrúar Reykjanesbæjar, Guðrún Eyjólfsdóttir, Ingibjörg Magnúsdóttir og Kristján Gunnarsson, fulltrúar Félags eldri borgara.

Eyjólfur Eysteinsson boðaði forföll og sat Ingibjörg Magnúsdóttir fundinn í hans stað.

Að auki sátu fundinn Ása Eyjólfsdóttir forstöðumaður stuðnings- og öldrunarþjónustu, Margrét Arnbjörg Valsdóttir deildarstjóri heimaþjónustu og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.

1. Niðurgreiðslur á sundleikfimi – beiðni um umsögn (2023020239)

Velferðarráð óskar eftir umsögn öldungaráðs Reykjanesbæjar um erindi Félags eldri borgara á Suðurnesjum þar sem tilkynnt er ákvörðun stjórnar félagsins um að hætta niðurgreiðslu á sundleikfimi. Stjórn félagsins telur raunhæft að Reykjanesbær niðurgreiði sundleikfimi fyrir eldra fólk.

Öldungaráð telur mjög æskilegt að sundleikfimi verði áfram í boði fyrir eldra fólk og hvetur velferðarráð til að taka jákvætt í erindið. Ráðið bendir á að sundleikfimi getur verið sambærileg við annað félagsstarf sem Reykjanesbær niðurgreiðir. Vert er að skoða hvort þetta geti fallið undir fyrirhugaðar hvatagreiðslur fyrir eldra fólk.

2. Félagslegt leiguhúsnæði fyrir eldra fólk (2022080308)

Ása Eyjólfsdóttir, forstöðumaður stuðnings- og öldrunarþjónustu, kynnti breytingar á félagslegu leiguhúsnæði fyrir eldra fólk sem felast í því að íbúðum sem hafa verið með búseturéttargjaldi verður breytt í leiguíbúðir án búseturéttargjalds þar sem umsækjendur þurfa að uppfylla tekju- og eignaviðmið félagslegra íbúða. Stefnt er að því að allar íbúðir sem eru til úthlutunar fyrir eldra fólk í Reykjanesbæ verði leiguíbúðir án búseturéttargjalds.

3. Gott að eldast – heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk (2023030494)

Félags- og vinnumarkaðsráðuðneytið og heilbrigðisráðuneytið hafa lagt fram drög að aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024-2027 þar sem farið verði í heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk. Aðgerðaáætlunin ber yfirskriftina Gott að eldast og er markmiðið með henni að flétta saman þjónustu sem snýr að eldra fólki, hvort sem um ræðir heimaþjónustu á vegum sveitarfélaga eða heilbrigðisþjónustu. Grunnhugmyndin er að þjónustan við eldra fólk sé veitt þegar hennar er þörf, á forsendum fólksins sjálfs og á réttu þjónustustigi.

Fylgigögn:

Gott að eldast - kynningarbæklingur

4. Fjölþætt heilsuefling 65+ (2022021106)

Samningur Reykjanesbæjar við Janus heilsueflingu um verkefnið Fjölþætt heilsuefling 65+ í Reykjanesbæ rennur út í byrjun september. Bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefur ákveðið að taka upp hvatagreiðslur fyrir eldra fólk frá janúar 2024.

Öldungaráð lýsir yfir vonbrigðum með að beiðni Janusar heilsueflingar um að framlengja samninginn fram að áramótum hafi verið hafnað og hvetur bæjarstjórn til að endurskoða þá ákvörðun til að brúa bilið þar til hvatagreiðslur verða teknar upp. Einnig óskar öldungaráð eftir að kynnt verði hvernig fyrirkomulag verður á hvatagreiðslum.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 14:50.