42. fundur

30.08.2023 08:15

42. fundur sjálfbærniráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 30. ágúst 2023 kl. 08:15

Viðstaddir: Þóranna Kristín Jónsdóttir varaformaður, Íris Ósk Ólafsdóttir, Aneta Grabowska, Guðni Ívar Guðmundsson, Jóhanna Björk Sigurbjörnsdóttir.

Að auki sátu fundinn Anna Karen Sigurjónsdóttir sjálfbærnifulltrúi, Silja Kolbrún Skúladóttir fulltrúi ungmennaráðs og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.

1. Sjálfbærniráð - erindisbréf (2023050182)

Á fundi bæjarstjórnar 20. júní 2023 var samþykkt breyting á samþykkt um stjórn Reykjanesbæjar og fundarsköp bæjarstjórnar. Þar var m.a. gerð sú breyting að heiti framtíðarnefndar var breytt í sjálfbærniráð og var jafnframt samþykkt breyting á erindisbréfi ráðsins þar að lútandi og hlutverk þess gert skýrara.

Sjálfbærniráð býður nýjan starfsmann ráðsins, Önnu Karen Sigurjónsdóttur sjálfbærnifulltrúa Reykjanesbæjar, velkomna til starfa fyrir ráðið. Ráðið fagnar skýrara hlutverki sínu og því leiðarljósi sem Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna eru fyrir starfsemi ráðsins.

2. Innleiðing á sjálfbærni í allri starfsemi Reykjanesbæjar (2021010385)

Sjálfbærni er rauður þráður í stefnum Reykjanesbæjar. Tryggja þarf að framkvæmdar séu þær aðgerðir sem samþykktar hafa verið og að til staðar sé nauðsynlegt fjármagn, mannauður og annað sem til þess þarf.

Sjálfbærniráð óskar eftir kynningu frá Guðlaugi Helga Sigurjónssyni, sviðsstjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs, á innleiðingu aðgerðaáætlunar í umhverfis- og loftslagsstefnu Reykjanesbæjar.

Einnig óskar ráðið eftir kynningu á framkvæmd fjárhagsáætlunargerðar Reykjanesbæjar og hvernig í henni er tryggt að nauðsynlegt fjármagn, mannauður og annað sem þarf sé til staðar til framkvæmdar aðgerða sem framfylgja markmiðum sveitarfélagsins í sjálfbærnimálum.

3. Fjórða iðnbyltingin - aðgerðir sjálfbærniráðs (2023050187)

Ljóst er að fjórða iðnbyltingin mun hafa mikil áhrif á samfélagið í Reykjanesbæ sem og heiminn allan. Sjálfbærniráð telur mikilvægt að stjórnsýsla sveitarfélagsins sé upplýst um fjórðu iðnbyltinguna og áhrif hennar, áskoranir og tækifæri fyrir samfélagið í Reykjanesbæ. Nauðsynlegt er að fjármagn verði sett í greiningar, stefnumótun og aðgerðir í málaflokknum.

Önnu Karen Sigurjónsdóttur sjálfbærnifulltrúa er falið að kanna hvernig best er að miðla upplýsingum inn í stjórnsýsluna til að tryggja að málið komist á dagskrá.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 09:50. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 5. september 2023.