60. fundur sjálfbærniráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Grænásbraut 910 þann 28. apríl 2025 kl. 08:15
Viðstaddir: Guðný Birna Guðmundsdóttir formaður, Guðni Ívar Guðmundsson, Guðný Ólöf Gunnarsdóttir, Hjörtur Magnús Guðbjartsson og Þóranna Kristín Jónsdóttir.
Að auki sátu fundinn Anna Karen Sigurjónsdóttir sjálfbærnifulltrúi og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.
Athena Júlía Józefudóttir boðaði forföll og sat Guðný Ólöf Gunnarsdóttir fundinn í hennar stað.
1. Kosningar og fyrirkomulag (2024010180)
Lokadrög að kosningaskýrslu lögð fram.
Sjálfbærniráð hefur unnið að kosningaskýrslu undanfarnar vikur. Áður hefur sjálfbærniráð gefið út skýrslu um alþingis- og forsetakosningar en þessi skýrsla fjallar um hugmyndir og tillögur að bættri kosningaþátttöku. Sjálfbærniráð vann skýrsluna en fékk auk þess aðstoð frá öldungaráði og ungmennaráði Suðurnesja og þakkar þeim fyrir þeirra þátttöku.
Sjálfbærniráð vonar að tillögur skýrslunnar megi nýtast sveitarfélaginu til að efla kosningaþátttöku íbúa.
2. Endurheimt votlendis í Reykjanesbæ (2025040420)
Guðný Birna Guðmundsdóttir formaður sjálfbærniráðs sagði frá stofnfundi sjálfbærnihóps FKA – Félags kvenna í atvinnulífinu, þar sem Bryndís Marteinsdóttir PHD og sviðsstjóri sviðs sjálfbærrar landnýtingar hjá Landi og skógi var með erindi og ræddi m.a. um endurheimt votlendis.
Sjálfbærniráð mun vinna að því að kortleggja hvort eitthvað landsvæði innan sveitarfélagsins falli undir skilgreiningu sem votlendi sem hægt er að endurheimta. Er aðgerðin liður í að draga úr kolefnisspori sveitarfélagsins. Málið verður unnið áfram í samstarfi við Land og skóg og Votlendissjóð.
3. Grenndarstöðvar í Reykjanesbæ (2024040512)
Anna Karen Sigurjónsdóttir sjálfbærnifulltrúi kynnti stöðu á vinnu við uppsetningu endurbættra grenndarstöðva í Reykjanesbæ.
4. Sjálfbærnivika á Suðurnesjum (2025030372)
Farið yfir hugmyndir að viðburðum í sjálfbærniviku sem haldin verður í tengslum við fánadag heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna í september.
5. Stóri plokkdagurinn 27. apríl 2025 (2025040421)
Stóri plokkdagurinn var haldinn þann 27. apríl 2025 og var fólk hvatt til að fara út og „plokka“, þ.e. tína rusl í umhverfi sínu. Sett voru upp plokk-ker á fjórum stöðum í Reykjanesbæ þar sem henda mátti ruslinu, en einnig var hægt að senda tölvupóst til umhverfismiðstöðvarinnar og óska eftir að ruslið yrði sótt.
Sjálfbærniráð fagnar stóra plokkdeginum og þakkar þeim íbúum sem lögðu hönd á plóg við að snyrta sveitarfélagið okkar. Í ljósi þeirra hressilegu vinda sem blása í okkar sveitarfélagi er mjög gott að íbúar taki einnig styttri plokkrölt en rusl má stundum sjá víða í sveitarfélaginu eftir vindasama daga. Saman getum við gert Reykjanesbæ að fallegum bæ alla daga, ekki bara á hátíðisdögum og sértilgreindum plokkdögum.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 9:57. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 6. maí 2025.