62. fundur

25.06.2025 08:15

62. fundur sjálfbærniráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Grænásbraut 910 þann 25. júní 2025, kl. 08:15

Viðstaddir: Guðný Birna Guðmundsdóttir formaður, Athena Júlía Józefudóttir, Guðni Ívar Guðmundsson, Hjörtur Magnús Guðbjartsson og Þóranna Kristín Jónsdóttir.

Að auki sátu fundinn Anna Karen Sigurjónsdóttir sjálfbærnifulltrúi og Íris Eysteinsdóttir ritari.

1. Svæðisáætlun í landgræðslu og skógrækt í Reykjanesbæ (2021040047)

Margrét Lilja Margeirsdóttir deildarstjóri umhverfismála og Berglind Ásgeirsdóttir umhverfisstjóri mættu á fundinn og kynntu svæðisáætlun í landgræðslu og skógrækt í Reykjanesbæ.

Sjálfbærniráð þakkar fyrir metnaðarfulla skýrslu um landgræðslu og skógrækt. Íbúar hafa látið í ljós áhuga á aukinni skógrækt innan bæjarins og telur sjálfbærniráð gagnlegt að birtar verði myndir og fréttir um skógrækt sem fer af stað hjá Reykjanesbæ í sumar.

2. Sorporkustöð (2023110110)

Talsverð umræða hefur verið undanfarin ár um möguleikann á sorporkustöð. Samband íslenskra sveitarfélaga stóð fyrir fundaröð um málið árið 2021 sem heitir Skör ofar. Út frá þeirri vinnu hafa verið gefnar út tvær skýrslur. Síðan þá hafa verið viðræður meðal annars milli Sorpu og Kölku um málið til að rýna hvort mögulegt sé að reisa slíka stöð á Íslandi en Helguvík hefur verið nefnd sem staðsetning sem væri möguleg.

Tveir fulltrúar sjálfbærniráðs fóru til Finnlands árið 2024 til að skoða slíkar stöðvar þar í landi ásamt fleiri fulltrúum, meðal annars frá Kölku og Sorpu.

Sjálfbærniráð telur mikilvægt að taka saman kjarngóðar upplýsingar um málið í heild sinni fyrir hönd Reykjanesbæjar. Kjarngóðar upplýsingar gætu meðal annars falið í sér tölulegar upplýsingar eins og kostnað við stöðina, fjölda starfa, stærð stöðvarinnar og möguleg afleidd áhrif hennar á Helguvík.

Sjálfbærniráð mun vinna málið áfram.

Fylgigögn:

Forverkefni um framtíðarlausn til meðhöndlunar brennanlegs úrgangs í stað urðunar

Forverkefni nr 2: Samanburður tveggja kosta um uppbyggingu hátæknibrennslu á Íslandi

Samantekt um byggingu brennslustöðvar á vegum Sorpu

3. Undirbúningur fyrir fjárhagsáætlun 2026 (2024050440)

Sjálfbærniráð forgangsraðaði sínum fjármunum á árinu í að kaupa sex bekki til að hvetja til aukinnar göngu um sveitarfélagið. Ráðið greiddi einnig fyrir fimm flokkunartunnur sem settar voru upp víðsvegar um sveitarfélagið, meðal annars eftir ábendingar frá ungmennaþingi Reykjanesbæjar. Að lokum var keypt efni til að setja á allar sex grenndarstöðvar bæjarins þar sem byggðar verða undirstöður undir þær og settir skjólveggir í kring úr endurunnu efni.

Sjálfbærniráð fór yfir verkefni sem geta aukið sjálfbærni Reykjanesbæjar auk atriða sem styðja við bætt umhverfi fyrir íbúa. Sett var saman byrjun að yfirferð á fjárhagsáætlun fyrir árið 2026 sem snýr að verkefnum ráðsins en unnið verður að áætluninni áfram í haust.

4. Sjálfbærni Reykjanesbæjar (2021010385)

Anna Karen Sigurjónsdóttir sjálfbærnifulltrúi fór yfir drög að sjálfbærniuppgjöri Reykjanesbæjar fyrir árið 2024. Sjálfbærniráð telur mjög mikilvægt að nýta til gagns þær upplýsingar sem koma fram í uppgjörinu til að meðal annars vinna að úrbótum í kolefnismálum og orkumálum. Sjálfbærniráð mun rýna uppgjörið og í kjölfarið benda á tækifæri til hagræðingar/bætingar fyrir næsta ár.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10.12. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarráðs 3. júlí 2025.