176. fundur

14.10.2015 00:00

176. fundur Umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar var haldinn 14. október 2015 að Tjarnargötu 12,kl 17:00.

Mætt: Eysteinn Eyjólfsson formaður, Guðni Jósep Einarsson aðalmaður, Magnea Guðmundsdóttir aðalmaður, Una María Unnarsdóttir aðalmaður, Jóhann Snorri Sigurbergsson aðalmaður, Sveinn Númi Vilhjálmsson skipulagsfulltrúi, Sigmundur Eyþórsson tæknifulltrúi, Guðlaugur H Sigurjónsson sviðsstjóri og Jóna Hrefna Bergsteinsdóttir, sem ritaði fundargerð.

1. Grundarvegur 23, grenndarkynning vegna umsóknar Rent fasteigna ehf. um stækkun og breytingu á húsnæðinu (2015060073)
Eigendur sækja um leyfi til að byggja við húsnæðið, byggja ofan á anddyri, hækka, endurbyggja og breyta þaki til að auka notagildi 3. hæðar, lagfæra útveggi og húsnæðið almennt samkvæmt uppdráttum frá Ellerti Má Jónssyni, dags. ágúst 2015. Málið var sent í grenndarkynningu og bárust athugasemdir undirritaðar af húseigendum þriggja húseigna næst Grundarvegi 23.

Grundarvegur 23 hýsti áður Sparisjóðinn og Víkurfréttir. Húsið stendur við umferðarmestu götu Reykjanesbæjar (lífæðina) og eðlilega er því mikið líf á þessum stað. Aðkoma að húsinu er að vestanverðu en önnur íbúðahús í  nágrenninu hafa aðkomu að sunnan og norðan því skarast þessar aðkomur ekki.

Til að koma til móts við athugasemdir íbúa fer USK ráð fram á að dregið verið úr umfangi við stækkun með því að langveggir verði lækkaðir um 1.0m og að þak verði með mæni. Auk þess að gluggar á þriðju hæð verði útfærðir með tilliti til innsendar athugasemdir. Til viðbótar verði lágmarkssvalir á suðurgafli eingöngu fyrir neyðarútganga og svalir á norðurgafli verði með sjónlokun til austurs. Að öðru leyti samþykkt..

2. Kirkjuvogur 13 Höfnum, grenndarkynning vegna umsóknar um stækkun og breytingu á húsnæði Stofnfisks ehf. fiskeldisstöð (2015090124)
Eigendur sækja um leyfi til að byggja við húsnæðið 890m2 viðbyggingar, endurbyggja og breyta þaki, lagfæra útveggi og húsnæðið almennt samkvæmt meðfylgjandi uppdráttum frá tækniþjónustu SÁ. dagsettum 12. ágúst 2015. Málið var sent í grenndarkynningu og bárust meðfylgjandi athugasemdir frá fimm húseigendum í nágrenni við fiskeldisstöðina. Einnig barst umsögn frá Minjastofnun.

Í aðalskipulagi er ekki gefin möguleiki á stækkun húsa á þessari lóð og einnig kemur fram að iðnaður er víkjandi í Höfnum. Á þessu svæði er einnig hverfavernd og það er á náttúruminjaskrá. Ekki er því hægt að heimila umbeðna stækkun en endurbætur á núverandi húsum er heimiluð í samráði við byggingarfulltrúa.

3. Bakkavegur 17, fyrirspurnir (2015100114)
Eigendur hótels Bergs leggja fram eftirfarandi fyrirspurnir (sjá meðfylgjandi erindi)
a) Misræmi milli aðalskipulags og deiliskipulags. Er hægt að hækka nýtingarhlutfall deiliskipulags í samræmi við aðalskipulag.?
b) Leyfilegt er að byggja eina hæð og ris, hámarkshæð byggingar skv. deiliskipulagi er 8,1m og hámarkshæð þakkants 6,5m. Innan þessara marka rúmast tvær hæðir og ris, er hægt að breyta texta þannig að leyfilegt verði að byggja tvær hæðir og ris?

Samkvæmt aðalskipulagi er nýtingarhlutfall 0,6 fyrir allt skipulagssvæðið en ákvarðast nánar í deiliskipulagi eftir staðsetningum lóða. Í tilfelli Bakkavegs 17 þá er skv. deiliskipulagi hámarks nýtingarhlutfall 0,33 vegna nálægðar við íbúabyggð. Þegar viðbygging hefur verið byggð þá er nýtingarhlutfallið fullnýtt þegar gert er ráð fyrir einni hæð og risi. Ekki stendur til að gera frekari breytingar á deiliskipulaginu á þessum stað miðað við núverandi byggðamynstur.

4. Hringbraut 96 (2015100122)
Eigendur Hringbrautar 96 óska leyfis til að gera nýja innkeyrslu og bílastæði fyrir efri hæð hússins norðan við húsið.

Málinu frestað og sviðstjóra falið að óska eftir umsögn lögreglustjóra út frá umferðaröryggi.

5. Austurgata 13, gistihús og ofanábygging á bakhús (2015100121)
Arnar Sigurjónsson óskar eftir að breyta rekstri hússins í gistihús. Húsið er skráð á verslunar og þjónustulóð skv. fasteignaskrá og eru fullnægjandi bílastæði við og fyrir framan húsið til að þjóna þeirri starfsemi sem fyrirhuguð er í húsinu. Einnig er óskað eftir leyfi til að byggja aðra hæð ofan á bakhús sem er ein hæð.

Samþykkt að senda málið í grenndarkynningu.

6. Laufdalur 17-23, 4 íbúða raðhús breytt í 6 íbúðir (2015100124)
Eyfaxi ehf. spyrst fyrir hvort leyft yrði að breyta raðhúsalóð í Laufdal 17-23 úr 4 íbúðum í 6 íbúðir.

Vel tekið í erindið.

7. Endurskoðun aðalskipulags, farið yfir íbúaþing íbúaþing og næstu skref (2015100125)
Íbúaþing var haldið 19. september 2015 og þar var farið yfir fyrstu skref í endurskoðun aðalskipulags Reykjanesbæjar. Þátttakendur skrifuðu niður tillögur sínar og eru þær hér meðfylgjandi.

Aðkoma bæjarbúa að endurskoðunninni verður tryggð m.a. með vefgátt sem opnuð hefur verið á vef Reykjanesbæjar og öðru íbúaþingi þegar mótaðar hugmyndir af endurskoðuðu aðalskipulagi liggja fyrir. Stýrihópur skipaður Eysteini Eyjólfssyni, Magneu Guðmundsdóttur, Kjartani Má Kjartanssyni og starfsmönnum USK heldur utan um verkefnið.

8. Hlíðahverfi, nýtt deiliskipulag, ósk um auglýsingu (2015100139)
Miðland óskar eftir að meðfylgjandi tillaga af deiliskipulagi Hlíðahverfis verði auglýst samkvæmt 41.gr skipulagslaga.

Deiliskipulag á þessu svæði var áður staðfest með auglýsingu í Stjórnartíðindum 9. nóvember 2011 en með bréfi Skipulagsstofnunar 9. nóvember 2012 var skipulagið ógilt vegna þess að of langur tími leið milli samþykktar Bæjarstjórnar og auglýsingar í Stjórnartíðindum. Þar sem allar meginforsendur deiliskipulagsins liggja fyrir í aðalskipulagi þá er ekki talin þörf á gerð skipulagslýsingar í þessu tilfelli. USK ráð leggur mikla áherslu á vandaða og metnaðarfulla uppbyggingu hverfisins. Samþykkt að auglýsa deiliskipulagstillöguna samkvæmt 41.gr skipulagslaga.

9. Reykjanes jarðvangur- fundargerðir  (2015030107)
Tvær fundargerðir lagðar fram til kynningar.

USK ráð fagnar aðild Reykjanes Geopak  að European Geoparks Network.

10. Endurskoðun hámarkshraða á hluta Aðalgötu (2015100166)

Í kjölfar þess að komin er upphækkuð gangbraut yfir Aðalgötuna við Hátún sem einnig er hraðahindrun leggur USK ráð til að hámarkshraði á Aðalgötunni verði hækkaður á ný upp í 50 km þar sem um stofnbraut er að ræða.

Fleira ekki gert og fundi slitið. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 20. október 2015.