25.02.2016 10:16

341. fundur velferðarráðs Reykjanesbæjar var haldinn 24. febrúar 2016 að Tjarnargötu 12, kl. 14:0.0

Mættir: Elfa Hrund Guttormsdóttir formaður, Jasmína Crnac aðalmaður, Sólmundur Friðriksson aðalmaður, Birgitta Jónsdóttir Klasen varamaður, Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri og Bjarney Rós Guðmundsdóttir fundarritari,


1. Fjárhagsáætlun velferðarsviðs 2016 (2015070183)

Hera Ósk Einarsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs, fer yfir stöðu fjárhagsáætlunar velferðarsviðs 2016. Velferðarráð ræðir um stöðu einstakra málaflokka og vægi þeirra í þjónustu við íbúa. 


2. Reglur um félagslega þjónustu í Reykjanesbæ (2015050102)

Á 340. fundi velferðarráðs þann 22. janúar sl. voru reglur um félagslega þjónustu í Reykjanesbæ lagðar fram til kynningar.

Velferðarráð hefur farið yfir reglur um félagslega þjónustu í Reykjanesbæ og samþykkir þær fyrir sitt leyti.


3. Búsetumál fatlaðs fólks (2015120215)

Á 340. fundi velferðarráðs þann 22. janúar sl. fól velferðarráð Sigríði Daníelsdóttur, forstöðumanni fjölskyldudeildar, að afla upplýsinga um mögulegar leiðir í búsetumálum fatlaðs fólks.

Fjöldi einstaklinga sem er á biðlista eftir sértæku búsetuúrræði í Reykjanesbæ eru 16 á aldrinum 16 - 36 ára. Nú þegar er brýn þörf á húsnæði með 5 - 6 íbúðum, ásamt aðstöðu fyrir starfsmenn, þar sem þjónusta yrði til staðar allan sólarhringinn. Jafnframt að í nágrenninu væru 2 - 3 íbúðir þar sem ekki væri sólarhringsþjónusta en íbúar nytu góðs af nálægðinni við sólarhringsviðveru starfsmanna.

Þegar horft er til framtíðar má gera ráð fyrir að þörf sé á að minnsta kosti tveimur búsetuúrræðum til viðbótar fyrir einstaklinga sem þurfa allt að sólarhringsþjónustu.


4. Dagur um málefni fjölskyldunnar 2016 (2016010627)

Dagskrá dags um málefni fjölskyldunnar 2016, sem haldinn verður 12. mars nk. í fjölskyldusetrinu Skólavegi 1, lögð fram til kynningar.


Fleira ekki gert og fundi slitið.

Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 1. mars nk.