352. fundur

04.05.2017 00:00

352. fundur velferðarráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 04.05.2017 kl. 13:30.

Viðstaddir: Elfa Hrund Guttormsdóttir formaður, Ingigerður Sæmundsdóttir aðalmaður, Ísak Ernir Kristinsson aðalmaður, Jasmína Crnac aðalmaður, Sólmundur Friðriksson aðalmaður, Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri Velferðarsviðs og ritari fundar.

1. Ársfundur Fjölsmiðjunnar á Suðurnesjum (2014040156)
Hera Ósk Einarsdóttir, sviðsstjóri velferðarsvið, fór yfir ársskýrslu og ársreikning Fjölsmiðjunnar á Suðurnesjum.
Markmið Fjölsmiðjunnar er að hjálpa ungu fólki á aldrinum 16 – 24 ára að finna sitt áhugasvið, öðlast starfsreynslu og þar með auka möguleika þess í atvinnulífinu eða í námi. Fjölsmiðjan gerir það með því að gefa kost á hagnýtri vinnu, framleiðslu og fræðilegri þjálfun, auk þess að efla félagshæfni og vinnufærni ungs fólks. Starfsemi Fjölsmiðjunnar samanstendur af nokkrum verkþáttum og er rekstur nytjamarkaðarins Kompunnar stærsti verkþátturinn. Alls voru 51 nemi í Fjölsmiðjunni á árinu 2016, 13 stúlkur og 39 strákar. 15 útskrifuðust í vinnu á árinu. 4 nemar stunduðu nám við Fjölbrautaskóla Suðurnesja á vorönn samhliða Fjölsmiðjunni og 3 nemar á haustönn og einn lauk námi í Menntastoðum hjá Miðstöð símenntunar. Fjölmargir aðilar styðja við starfsemi Fjölsmiðjunnar með einum eða öðrum hætti og er þeim þakkaður stuðningurinn. Vill velferðarráð sérstaklega þakka stofnaðilum sem eru Rauði kross Íslands, Suðurnesjadeild Rauða krossins, Reykjanesbær, Vinnumálastofnun, Verslunarmannafélag Suðurnesja, Verkalýðs-og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis og Félag iðn- og tæknigreina. Án stuðningsaðila er starfsemi Fjölsmiðjunnar ekki framkvæmanleg. Ársreikningur Fjölsmiðjunnar sýnir að reksturinn er réttu megin við núllið 2016.

2. Endurskoðun samnings Reykjanesbæjar við Útlendingastofnunar vegna þjónustu við hælisleitendur (2017040335)
Hera Ósk Einarsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs fór yfir núgildandi samning Reykjanesbæjar við Útlendingastofnun um þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd.
Sviðstjóri leggur til að óskað verði eftir endurskoðun á fyrirliggjandi samningi Reykjanesbæjar og Útlendingastofnunar í ljósi samnings Útlendingastofnunar og Reykjavíkurborgar sem undirritaður var í mars sl. Nokkur ákvæði í þeim samningi gefa tilefni til endurskoðunar m.a. vegna breyttrar kostnaðarskiptingar Útlendingastofnunar og þjónustusveitarfélaga.
Velferðarráð leggur til að endurskoðun fari fram á samningum miðað við þjónustu við óbreyttan fjölda umsækjenda.

3. Félagslegt leiguhúsnæði (2016050139)
Hera Ósk Einarsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs gerði grein fyrir fundi sínum með Elínu Kyseth foringja Hjálpræðishersins í Reykjanesbæ varðandi málefni húsnæðislausra og einstaklinga í þörf fyrir þjónustu og stuðning við sjálfstæða búsetu.
Velferðarráð felur sviðsstjóra að leggja fyrir næsta fund ráðsins drög að samstarfs-og þjónustusamningi við Hjálpræðisherinn í Reykjanesbæ um þjónustu við húsnæðislausa og einstaklinga sem glíma við geð- og/eða fíknivanda.

4. Drög að fjölmenningarstefnu (2014010845)
Farið yfir umsagnir annarra fagnefnda á drögum að fjölmenningarstefnu Reykjanesbæjar.
Velferðarráð þakkar fagnefndum fyrir umsagnir og ábendingar og felur stýrihóp um málefni innflytjenda að fara yfir þær og leggja lokadrög að endurskoðaðri fjölmenningarstefnu Reykjanesbæjar fyrir næsta fund ráðsins.

5. Fjölþætt heilsurækt í Reykjanesbæ – heilsuefling fyrir eldri aldurshópa (2016100308)
Skráningu í verkefnið er lokið og hafa 113 skráð sig til þátttöku. Mælingar fara fram í þessari viku og hefjast æfingar í næstu viku.

6. Hreyfivika UMFÍ (2016080317)
Velferðarráð hvetur starfsmenn og íbúa sveitarfélagsins til þátttöku í Hreyfiviku UMFÍ 29. maí – 4. júní nk. Reykjanesbær er þátttakandi í verkefninu Heilsueflandi samfélag með Embætti landlæknis og er hreyfivika UMFÍ árleg lýðheilsuherferð sem hefur það að markmiði að kynna kosti þess að taka þátt í hreyfingu og íþróttum. Stofnanir, fyrirtæki, félagasamtök og íþrótta-og tómstundafélög í Reykjanesbæ eru hvött til þátttöku í Hreyfivikunni.

Reykjanesbær hefur skráð sig til leiks í sundkeppni milli sveitarfélaga. Sundlaugargestir skrá daglega í afgreiðslu sundmiðstöðvarinnar hversu marga metra þeir syntu. Dregin verða út tvö árskort í Sundmiðstöðina úr hópi þeirra sem taka þátt í sundkeppninni. Að auki verður ókeypis í Sundmiðstöð Reykjanesbæjar föstudaginn 2. júní nk.

7. Mælaborð 2017 - mars (2017010356)
Hera Ósk Einarsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs, fer yfir lykiltölur velferðarsviðs Reykjanesbæjar í mars í Mælaborði 2017.

8. Tölulegar upplýsingar um fjárhagsaðstoð og sérstakan húsnæðisstuðning í mars 2017 (2017030442)
Farið yfir lykiltölur fjárhagsaðstoðar og sérstaks húsnæðisstuðnings í mars 2017.

Fjárhagsaðstoð
Í mars 2017 var greitt til framfærslu kr. 9.042.245,- Fjöldi einstaklinga/fjölskyldna var 77. Árið 2016 var í sama mánuði greitt kr. 14.425.608,- til framfærslu. Fjöldi einstaklinga/fjölskyldna var 128.

Milli febrúar og mars 2017 voru 19 einstaklingar/fjölskyldur sem endurnýjuðu ekki umsókn sína, 8 nýjar umsóknar samþykktar á móti.

Sérstakur húsnæðisstuðningur
Í mars 2017 var greitt kr. 1.216.984,- í sérstakan húsnæðisstuðning. Fjöldi einstaklinga/fjölskyldna var 88.

Áfrýjunarnefnd
Í mars 2017 voru 24 erindi til afgreiðslu í áfrýjunarnefnd, 19 erindi samþykkt/staðfest, 2 erindum synjað og 3 erindum frestað/vísað frá/dregin tilbaka.


Fleira ekki gert og fundi slitið. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 16. maí 2017.