10.04.2019 00:00

373. fundur velferðarráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 10. apríl 2019 kl. 14:00.

Viðstaddir: Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir formaður, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Hrafn Ásgeirsson, Jasmina Crnac, Jónína Sigríður Birgisdóttir, Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.
Sigríður Daníelsdóttir forstöðumaður fjölskyldumála sat fundinn í 2. – 4. máli.

1. Áfengis- og vímuefnaneysla ungmenna og fyrirbyggjandi aðgerðir (2019040137)

Hafþór Barði Birgisson, íþrótta- og tómstundafulltrúi, mætti á fundinn og kynnti tilurð og hlutverk Samtakahópsins. Hann fór m.a. yfir niðurstöður rannsókna um áfengis- og fíkniefnaneyslu ungmenna og stöðu forvarnarmála í sveitarfélaginu. Fram kom að áfengisneysla ungmenna hefur minnkað mikið á undanförnum áratugum en nú virðist sem einhver aukning hafi orðið. Nú þegar er öflugt forvarnarstarf unnið í sveitarfélaginu og hefur þegar verið hafist handa við að bregðast við þessari aukningu, en þörf er á að bæta enn frekar í.

2. NPA - Notendastýrð persónuleg aðstoð (2019040115)

Sigríður Daníelsdóttir, forstöðumaður fjölskyldumála, fór yfir stöðu mála og skyldur sveitarfélagsins í kjölfar nýrra laga um notendastýrða persónulega aðstoð.

3. Notendaráð fatlaðs fólks (2018120096)

Samráðshópur um málefni fatlaðs fólks er starfræktur á grundvelli 42. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga með síðari breytingum.
Markmið og tilgangur samráðshópsins er að fylgjast með þróun og þjónustu í málefnum fatlaðs fólks innan sveitarfélagsins og taka þátt í almennri stefnumótun og áætlanagerð sveitarfélagsins í málum sem varða fatlaða íbúa þess.
Samráðshóp um málefni fatlaðs fólks er ætlað að vera bæjarstjórn, nefndum og ráðum til ráðgjafar um málefni og hagsmuni fatlaðs fólks í sveitarfélaginu og fá til umsagnar málefni, sem varða stefnumótun og þjónustu við fatlað fólk. Samráðshópnum er jafnframt ætlað að vera umsagnaraðili til ráðuneytis um veitingu starfsleyfis skv. 7. gr. laga um þjónustu við fólk með langvarandi stuðningsþarfir, að vera umsagnaraðili í ferlimálum og að kynna fyrir fötluðu fólki þau úrræði og þjónustu sem er í boði.
Í samráðshópnum skulu að lágmarki sitja þrír fulltrúar kosnir af sveitarstjórn að loknum sveitarstjórnarkosningum og þrír fulltrúar tilnefndir af hagsmunasamtökum fatlaðs fólks.
Velferðarráð vísar málinu til bæjarráðs og óskar eftir tilnefningu þriggja fulltrúa í samráðshópinn. Einnig er óskað eftir afstöðu bæjarráðs til greiðslu nefndarlauna fyrir setu í notendaráði.

4. Húsnæðismál - sértæk búsetuúrræði fatlaðs fólks (2019040138)

Lögð fram umsókn frá Brynju, hússjóði Öryrkjabandalags Íslands, um stofnframlag vegna byggingar á 7 íbúða raðhúsi við Stapavelli í Reykjanesbæ.
Velferðarráð mælir með að umsóknin verði samþykkt. Málinu er vísað til bæjarráðs.

5. Samstarf um greiðslu gistináttagjalds í neyðarathvörfum Reykjavíkurborgar fyrir heimilislausa (2019010314)

Lagt fram erindi frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar þar sem óskað er eftir samstarfi um greiðslu gistináttagjalds í neyðarathvörfum Reykjavíkurborgar fyrir heimilislausa.
Velferðarráð samþykkir að ganga til samninga við velferðarsvið Reykjavíkurborgar og felur sviðsstjóra velferðarsviðs að vinna málið áfram.

6. Fundargerð samtakahópsins 28. mars 2019 (2019010279)

Fundargerðin lögð fram.

Velferðarráð fagnar gerð lýðheilsustefnu fyrir sveitarfélagið sem og áhuga ungmennaráðs á aukinni fræðslu og forvörnum. Það er von velferðarráðs að Samtakahópurinn geti komið til móts við óskir ungmennaráðs. Ráðið lýsir einnig ánægju með fræðslu sem verið er að skipuleggja um geðheilsu ungs fólks. Athygli er vakin á því að forvarnardagur Samtakahópsins verður haldinn 20. maí nk.

7. Mælaborð velferðarsviðs og tölulegar upplýsingar (2019030140)

Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs lagði fram mælaborð fyrir janúar - mars 2019.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16:20. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 16. apríl 2019.