387. fundur

13.05.2020 14:00

387. fundur velferðarráðs Reykjanesbæjar, fjarfundur haldinn þann 13. maí 2020 kl. 14:00

Viðstaddir: Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir formaður, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Hrafn Ásgeirsson, Jasmina Crnac, Jónína Sigríður Birgisdóttir, Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.

1. Nýtt hjúkrunarheimili (2019050812)

Guðlaugur H. Sigurjónsson, sviðsstjóri umhverfissviðs, mætti á fundinn og kynnti svokallaða Sléttuvegsleið við uppbyggingu hjúkrunarheimila. Bæjarráð Reykjanesbæjar hefur samþykkt að ganga til samninga við Sjómannadagsráð vegna verkumsjónar á nýju hjúkrunarheimili sem verður sambyggt núverandi heimili við Njarðarvelli, en Sjómannadagsráð hefur nýlokið við sambærilegt verk fyrir Reykjavíkurborg þar sem byggt var nýtt hjúkrunarheimili við Sléttuveg í Reykjavík. Hrafnista, sem er rekin af Sjómannadagsráði, er rekstraraðili núverandi hjúkrunarheimilis í Reykjanesbæ.

2. Umhverfisstefna Reykjanesbæjar (2020021391)

Guðlaugur H. Sigurjónsson, sviðsstjóri umhverfissviðs, mætti á fundinn og kynnti tillögur að nálgun, viðfangsefnum og markmiðum Umhverfisstefnu Reykjanesbæjar.

Velferðarráð mun fara yfir tillögurnar og leggja fram umsögn á næsta fundi.

3. Barnvæn sveitarfélög - innleiðing Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna (2020021548)

María Gunnarsdóttir, forstöðumaður barnaverndar, mætti á fundinn og gerði grein fyrir málinu.

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkti á fundi sínum þann 7. apríl sl. að sækja um þátttöku í samstarfsverkefni Félagsmálaráðuneytisins og UNICEF á Íslandi um barnvæn sveitarfélög og hefur Reykjanesbær, ásamt sjö öðrum sveitarfélögum, verið boðið að taka þátt í verkefninu á árinu 2020. Reykjanesbær hefur skipað Maríu Gunnarsdóttur, forstöðumann barnaverndar, verkefnastjóra yfir verkefninu.

Fylgigögn:

Barnvæn samfélög

4. Sumarúrræði fyrir fötluð börn (2020040071)

Hera Ósk Einarsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs, kynnti sumarúrræði sem verða í boði fyrir fötluð börn á vegum Reykjanesbæjar í sumar.

5. Þjónusta velferðarsviðs vegna COVID-19 (2020030203)

Hera Ósk Einarsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs, fór yfir fyrirkomulag á þjónustu velferðarsviðs Reykjanesbæjar eftir rýmkun á fjöldatakmörkun samkomubanns þann 4. maí síðastliðinn.

Fylgigögn:

Þjónusta velferðarsviðs vegna COVID-19 - breytingar eftir rýmkun á fjöldatakmörkun 4. maí 2020

6. Aðgerðir á velferðarsviði vegna efnahagsáhrifa COVID-19 (2020050218)

Hera Ósk Einarsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs, kynnti tillögur til aðgerða á sviði velferðarmála í Reykjanesbæ 2020 til 2021 en þar er um að ræða viðbrögð við efnahagslegum áhrifum COVID-19 á notendur velferðarþjónustu sveitarfélagsins.

Velferðarráð færir sviðsstjóra og starfsfólki velferðarsviðs þakkir fyrir vel unnar tillögur sem lagðar eru fram til kynningar. Ráðið mun vinna áfram að tillögunum og taka málið aftur fyrir á næsta fundi.

7. Mælaborð og tölulegar upplýsingar (2020021149)

Hera Ósk Einarsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs, fór yfir mælaborð og tölulegar upplýsingar vegna apríl 2020.

Fjárhagsaðstoð

Í apríl 2020 fengu 124 einstaklingar greiddan framfærslustyrk frá Reykjanesbæ, alls voru greiddar kr. 16.476.777,-. Í sama mánuði 2019 fengu 86 einstaklingar greiddan framfærslustyrk.

Sérstakur húsnæðisstuðningur

Í apríl 2020 fengu alls 222 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélagsins, samtals kr. 3.019.542,-. Í sama mánuði 2019 fengu 157 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning.

Áfrýjunarnefnd

Í apríl 2020 voru 13 mál lögð fyrir áfrýjunarnefnd. 11 erindi voru samþykkt og 2 erindum frestað.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15:50. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 19. maí 2020.