08.12.2021 14:00

405. fundur velferðarráðs Reykjanesbæjar, fjarfundur haldinn þann 8. desember 2021 kl. 14:00

Viðstaddir: Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir formaður, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Hrafn Ásgeirsson, Jasmina Vajzovic Crnac, Jónína Sigríður Birgisdóttir og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.

1. Atvinnumál og vinnumarkaðsaðgerðir (2020040083)

Unnur Sverrisdóttir forstjóri Vinnumálastofnunar, Hildur Jakobína Gísladóttir, forstöðumaður Vinnumálastofnunar á Suðurnesjum, Bjarney Rós Guðmundsdóttir, teymisstjóri ráðgjafar- og virkniteymis og Aðalheiður Hilmarsdóttir ráðgjafi í atvinnumálum mættu á fundinn og sögðu frá stöðunni í atvinnumálum og árangri vinnumarkaðsaðgerða á Suðurnesjum.

Einnig sátu Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri og Sigurgestur Guðlaugsson verkefnastjóri atvinnu- og viðskiptaþróunar fundinn í þessu máli.

Samstarf Vinnumálastofnunar og ráðgjafa í atvinnumálum hjá Reykjanesbæ hefur gengið vel og hafa 92 einstaklingar komist út á vinnumarkaðinn í gegnum átakið Hefjum störf.

2. Fjárhagsáætlun 2022 (2021060488)

Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir formaður velferðarráðs kynnti helstu breytingar er varða velferðarsvið í fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar 2022-2025 á milli fyrri og síðari umræðu í bæjarstjórn en áætlunin var samþykkt í bæjarstjórn í gær.

3. Breytt skipulag barnaverndar (2021120010)

Lagt fram erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga varðandi breytingar á barnaverndarlögum sem taka gildi 28. maí 2022 en þær lúta fyrst og fremst að breyttu skipulagi barnaverndar. Samkvæmt lögunum verða barnaverndarnefndir lagðar niður og í stað þeirra verða starfræktar tvær aðskildar einingar á vettvangi sveitarfélaga, annars vegar barnaverndarþjónusta og hins vegar umdæmisráð barnaverndar. Umdæmisráðin fara með afmörkuð verkefni í tengslum við meðferð barnaverndarmála þar sem talin er mest þörf á sérhæfðri fagþekkingu í barnavernd. Að öðru leyti fer barnaverndarþjónusta með barnaverndarmál. Samband íslenskra sveitarfélaga, í samstarfi við félagsmálaráðuneytið, mun halda kynningu á breyttri skipan barnaverndar mánudaginn 13. desember 2021.

Fylgigögn:

Breytt skipulag barnaverndar - erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga

4. Umdæmisráð barnaverndar á Suðurnesjum (2021120037)

Lagt fram erindi frá sviðsstjóra fjölskyldusviðs Suðurnesjabæjar þar sem óskað er eftir viðræðum við Reykjanesbæ um samstarf um eitt umdæmisráð barnaverndar á Suðurnesjum í kjölfar breytinga á barnaverndarlögum sem taka gildi 28. maí 2022.

Barnavernd Reykjanesbæjar mun vinna málið áfram.

5. Fundargerðir öldungaráðs Suðurnesja 6. september og 8. nóvember 2021 (2020021261)

Fundargerðir lagðar fram.

Fylgigögn:

Fundargerð öldungaráðs Suðurnesja 6. september 2021
Fundargerð öldungaráðs Suðurnesja 8. nóvember 2021

6. Tölulegar upplýsingar (2021010238)

Fjárhagsaðstoð

Í nóvember 2021 fengu 149 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð frá Reykjanesbæ, alls voru greiddar kr. 23.261.713. Í sama mánuði 2020 fengu 146 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð, alls voru greiddar kr. 21.052.810. Umsækjendum með samþykkta fjárhagsaðstoð hefur fjölgað um 2% milli nóvember 2020 og 2021.

Sérstakur húsnæðisstuðningur

Í nóvember 2021 fengu 294 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélagsins, samtals kr. 4.117.940. Í sama mánuði 2020 fengu 256 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning, samtals kr. 3.464.589. Umsækjendum með samþykktan sérstakan húsnæðisstuðning hefur fjölgað um 14.8% milli nóvember 2020 og 2021.

Áfrýjunarnefnd

Í nóvember 2021 voru 18 erindi lögð fyrir áfrýjunarnefnd. 14 erindi voru samþykkt, 3 erindum var synjað og 1 frestað.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15:30. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 21. desember 2021.