412. fundur

17.08.2022 14:00

412. fundur velferðarráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 17. ágúst 2022 kl. 14:00

Viðstaddir: Sigurrós Antonsdóttir formaður, Andri Fannar Freysson, Birna Ósk Óskarsdóttir, Eyjólfur Gíslason, Rannveig Erla Guðlaugsdóttir.

Að auki sátu fundinn Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs, Bjarney Rós Guðmundsdóttir teymisstjóri ráðgjafar- og virkniteymis og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.

1. Siðareglur kjörinna fulltrúa (2022060218)

Siðareglur kjörinna fulltrúa lagðar fram. Fulltrúar í velferðarráði staðfesta að hafa lesið reglurnar.

Velferðarráð leggur til að notast sé við kynhlutlaust mál í öllum opinberum textum sem birtast af hálfu Reykjanesbæjar. Þá sé t.d. talað um „öll“ í stað „allir“, „starfsfólk“ í stað „starfsmenn“ o.s.frv. eins og við á.

Fylgigögn:

Með því að smella hér má skoða siðareglur kjörinna fulltrúa á vef Reykjanesbæjar

2. Erindisbréf velferðarráðs (2022060217)

Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs fór yfir tillögur að breytingum á erindisbréfi velferðarráðs.

Velferðarráð samþykkir að senda framlagðar tillögur að breytingum á erindisbréfi velferðarráðs til forsetanefndar.

3. Sérstakur húsnæðisstuðningur (2022080318)

Bjarney Rós Guðmundsdóttir, teymisstjóri ráðgjafar- og virkniteymis, gerði grein fyrir tillögu um hækkun sérstaks húsnæðisstuðnings Reykjanesbæjar vegna mótvægisaðgerða ríkisstjórnarinnar.

Velferðarráð vísar málinu til bæjarráðs og leggur áherslu á mikilvægi hækkunar sérstaks húsnæðisstuðnings til að draga úr áhrifum verðbólgu á lífskjör viðkvæmustu hópa samfélagsins, hún er til þess fallin að styðja við tekjulægstu hópa leigjenda.

4. Félagslegt húsnæði (2022080308)

Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs gerði grein fyrir tillögu að breytingu og innlausn á búseturétti/hlutdeildaríbúðum í félagslegu leiguhúsnæði aldraðra.

Velferðarráð vísar málinu til bæjarráðs. Ráðið telur þessar breytingar mjög mikilvægar til þess að allir sitji við sama borð hvað úthlutun á húsnæði aldraðra varðar. Einnig eru líkur á að breytingarnar muni stuðla að því að minnka biðlista eftir húsnæði og væri það til mikils vinnandi.

5. Samræmd móttaka flóttafólks (2022020555)

Ásta Kristín Guðmundsdóttir, teymisstjóri alþjóðlegrar verndar, mætti á fundinn og kynnti stöðu mála varðandi samræmda móttöku flóttafólks.

Velferðarráð lagði fram eftirfarandi bókun:

„Velferðarráð leggur áherslu á að Reykjanesbær hefur staðið sig gríðarlega vel í móttöku flóttafólks undanfarin ár. Sveitarfélagið hefur tekið á móti flóttafólki og einstaklingum sem bíða eftir alþjóðlegri vernd síðan árið 2003. Einnig bættist við samningur um samræmda móttöku flóttafólks árið 2021.

Samfélagið okkar hefur margt gott upp á að bjóða. Við eigum metnaðarfulla leik- og grunnskóla og öflugt starfsfólk. Náungakærleikurinn er okkur dýrmætur og við viljum ala börnin okkar upp við öryggi ásamt því að tryggja að íbúum okkar líði sem allra best og aðlagist samfélaginu okkar burtséð frá því hver uppruni fólks er. Við erum fjölmenningarsamfélag og hreykjum okkur af því.

Einstaklingar sem flýja stríð og óöryggi í heimalandi sínu eru augljóslega að leita að betra lífi fyrir sig og sína fjölskyldu og ættu ávallt að vera velkomin til okkar. En að sama skapi er fyllilega ljóst að Reykjanesbær auk fárra annarra sveitarfélaga geta ekki borið uppi móttöku fyrir alla þá sem til landsins koma. Fleiri sveitarfélög verða að taka þátt í verkefninu og vera jákvæðari í að sinna þessu mikilvæga og metnaðarfulla starfi sem samræmd móttaka flóttafólks er.

Þegar litið er til fjölda umsækjenda um alþjóðlega vernd sem félags- og vinnumarkaðsráðuneytið er með í Reykjanesbæ eru samtals 443 einstaklingar með aðstöðu á Ásbrú. Þetta þýðir að þeir einstaklingar sem eru búsettir í þessum úrræðum við leyfisveitingu verða skráðir með lögheimili í Reykjanesbæ og er þá sjálfkrafa vísað til félagsþjónustu sveitarfélagsins við veitingu verndar. Það gefur augaleið að innviðir okkar líkt og félagsþjónusta sveitarfélagsins, heilbrigðisþjónustan, löggæsla, leikskólar og grunnskólar, ráða ekki við allan þennan fjölda fólks sem þarna kemur í fangið á okkur.

Úrræði sem þessi auk móttökustöðva eru einungis staðsett í Reykjanesbæ, Suðurnesjabæ, Hafnarfirði og Reykjavík. Alls eru um 1.000 einstaklingar í móttökuúrræðum ríkisins að sækja um vernd en helmingur þeirra er á Suðurnesjum.

Íbúar á Suðurnesjum öllum telja um 8% af íbúum landsins og er eitt stærsta vaxtarsvæði landsins. Íbúum Reykjanesbæjar hefur til að mynda fjölgað um 7,7% á undanförnum 12 mánuðum. Þrátt fyrir að Reykjanesbær sé nú þegar með samning um móttöku fólks á flótta auk samnings um samræmda móttöku flóttafólks eru ráðuneytið og Vinnumálastofnun enn að bæta í með því að taka á leigu húsnæði í sveitarfélaginu. Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið hefur komið alls 50% af þeim sem þurfa móttökuúrræði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd fyrir á Suðurnesjunum. Þessum úrræðum verður ráðuneytið að dreifa víðar. Innviðir Reykjanesbæjar geta ekki tekið við fleira fólki og biðlum við því til Vinnumálastofnunar að leita til annarra sveitarfélaga og að önnur sveitarfélög taki þátt í móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd.“

Sigurrós Antonsdóttir
Birna Ósk Óskarsdóttir
Andri Fannar Freysson
Rannveig Erla Guðlaugsdóttir
Eyjólfur Gíslason

6. Styrkbeiðni frá Aflinu (2022080104)

Lögð fram beiðni um styrk frá Aflinu, samtökum gegn kynferðis- og heimilisofbeldi.

Velferðarráð getur ekki orðið við beiðninni. Erindinu er hafnað.

Fylgigögn:

Aflið - ársskýrsla 2021

7. Mælaborð og tölulegar upplýsingar (2022010091)

Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs lagði fram tölfræði og tölulegar upplýsingar vegna fjárhagsaðstoðar og sérstaks húsnæðisstuðnings í júní og júlí 2022.

Fjárhagsaðstoð

Í júní 2022 fékk 261 einstaklingur greidda fjárhagsaðstoð frá Reykjanesbæ, alls voru greiddar kr. 39.480.219. Í sama mánuði 2021 fengu 149 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð, alls voru greiddar kr. 22.084.326.

Í júlí 2022 fengu 228 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð frá Reykjanesbæ, alls voru greiddar kr. 32.664.875. Í sama mánuði 2021 fengu 140 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð, alls voru greiddar kr. 20.614.572.

Sérstakur húsnæðisstuðningur

Í júní 2022 fengu alls 275 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélagsins, samtals kr. 3.774.288. Í sama mánuði 2021 fengu 279 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning, samtals kr. 3.886.253.

Í júlí 2022 fengu alls 285 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélagsins, samtals kr. 3.942.673. Í sama mánuði 2021 fengu 280 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning, samtals kr. 3.942.673

Áfrýjunarnefnd

Enginn fundur var haldinn í áfrýjunarnefnd í júní.

Í júlí 2022 voru haldnir 2 fundir í áfrýjunarnefnd og 27 erindi lögð fyrir nefndina. 15 erindi voru samþykkt, 8 erindum var synjað og 4 frestað.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16:15. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 23. ágúst 2022.