413. fundur

21.09.2022 14:00

413. fundur velferðarráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 21. september 2022 kl. 14:00

Viðstaddir: Sigurrós Antonsdóttir formaður, Andri Fannar Freysson, Birna Ósk Óskarsdóttir, Eyjólfur Gíslason, Rannveig Erla Guðlaugsdóttir.

Að auki sátu fundinn Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.

1. Velferðarnet Suðurnesja - sterk framlína (2021030184)

Eydís Rós Ármannsdóttir verkefnastjóri velferðarnets og Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir verkefnastjóri fjölmenningarmála mættu á fundinn og kynntu verkefnið Velferðarnet Suðurnesja – sterk framlína ásamt nýsköpunaráætlun um þróun velferðarþjónustu á Suðurnesjum.

Velferðarráð fagnar því að verið sé að vinna að þessu verkefni og að meginmarkmið Velferðarnetsins sé að styrkja og auka nýsköpun á grundvelli sjálfbærni í þjónustu við íbúa á sviði félags-, heilbrigðis- og menntamála hjá opinberum stofnunum á Suðurnesjum. Verkefnið stuðlar að auknum lífsgæðum íbúa í formi vellíðunar og virkni, tækifærum þeirra til félagslegrar þátttöku og atvinnu með bættu aðgengi að opinberri velferðarþjónustu og eflir sjálfstæði og sjálfbærni eldri borgara við upplýsingaöflun. Lögð var áhersla á eftirfarandi:

• Hröð íbúafjölgun síðustu ára og áskoranir tengdar þjónustu og upplýsingagjöf.
• Hátt hlutfall atvinnuleitenda.
• Hátt hlutfall íbúa af erlendum uppruna sem býr ekki við sömu tækifæri til félagslegrar þátttöku og aðrir íbúar samfélagsins.
• Áskoranir tengdar heilsufari og lífsstíl sem og skorti á félagslegri þátttöku.

Starfshópurinn fékk breiðara hlutverk í október 2021 sem leiddi til þess að fleiri komu að borðinu. Öll sveitarfélögin á Suðurnesjum, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, Vinnumálastofnun Suðurnesja, Sýslumaðurinn á Suðurnesjum og Lögreglustjórinn á Suðurnesjum eru þátttakendur í verkefninu sem er afar ánægjulegt.

Velferðarráð vill leggja sérstaka áherslu á hversu vel verkefnið hefur verið unnið og að mikil þörf sé á að þeirri vinnu verði haldið áfram.

Fulltrúi D-lista lagði fram eftirfarandi bókun:

„Mig langar sérstaklega að vekja athygli á vellíðan íbúa og krafti fjölbreytileikans sem talar jafnframt vel við menntastefnu Reykjanesbæjar 2021-2030, „Með opnum hug og gleði í hjarta“. Þar er kveðið á um að skapa öllum börnum og ungmennum í Reykjanesbæ öruggt og hvetjandi umhverfi þannig að þeim líði vel, þau hafi tækifæri til að rækta hæfileika sína og blómstra á sínu sviði.

Með þessum orðum langar mig sérstaklega til að opna umræðuna innan stjórnsýslunnar um málefni hinsegin ungmenna í Reykjanesbæ. Í stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í vor kom fram að koma ætti á samstarfi við ýmis samtök til að auka á fræðslu, sýnileika og til að styðja við t.d. minnihlutahópa og voru Samtökin 78 nefnd sérstaklega.

Hér í bæjarfélaginu er starfræktur hópur á vegum foreldra sem ber heitið Hinsegin Plútó. Fyrir tæpum fimm árum síðan hóf framsækinn hópur fólks að standa fyrir sérstökum kvöldum fyrir ungt hinsegin fólk, vettvang þar sem ungmenni geta leitað til og fengið stuðning frá jafningjum. Hópurinn á bakvið Hinsegin Plútó hefur undanfarin ár sinnt þessu starfi í sjálfboðavinnu og tugir ungmenna hafa sótt þau kvöld sem eru í boði á vegum Hinsegin Plútó. Staðan er sú að þeim var boðin aðstaða í 88 húsinu í upphafi, eru þar enn, og er það vel. Staðan er hins vegar sú að í samfélagi ungmenna sem eru mögulega að berjast við innra sjálfið og átta sig á sinni kynhneigð, tilfinningum og upplifunum þá reynist það þeim afar erfitt að koma í 88 Húsið þegar önnur ungmenni eru að sækja aðra viðburði á sama tíma. Það getur verið kvalafull upplifun að þurfa að standa andspænis öðrum þegar feluleikur í hjartanu á sér stað. Feluleikurinn fyrir því hver við í raun og veru erum.

Með þessari bókun kalla ég eftir almennri umræðu um málefni hinsegin ungmenna í bæjarfélaginu, hvað við getum gert sem samfélag til að auka á forvarnir og fræðslu um hinsegin mál. Þá kallar Sjálfstæðisflokkurinn einnig eftir því að samtali verði komið á milli forsvarsfólks Hinsegin Plútó um hvernig stjórnsýslan í Reykjanesbæ getur orðið þessum mikilvæga hóp sem stendur að baki Hinsegin Plútó að liði, t.d. með betri aðstöðu sem getur tryggt leynd hópsins þegar þess þarf. Það er alveg ljóst að samtök sem þessi hér í bæ er nýsköpun og eru til þess gerð til að skapa öruggt umhverfi fyrir ungmennin okkar í Reykjanesbæ, í krafti fjölbreytileikans.

Það er ósk mín að bókunin verði tekin til umfjöllunar hjá bæjarráði og síðar á sviði bæjarstjórnar þar sem tækifæri gefst til að ræða stöðu hinsegin fólks í Reykjanesbæ, af mikilli alvöru. Þá erum við að uppfylla það leiðarljós sem felst í krafti fjölbreytileikans sem lýtur að einni af grunnþörfum hverrar manneskju, sem er að tilheyra samfélaginu.“

Eyjólfur Gíslason.

Fylgigögn:

Nýsköpunaráætlun Velferðarnets Suðurnesja

2. Barnvænt sveitarfélag (2020021548)

Hjörtur Magni Sigurðsson, verkefnastjóri barnvæns sveitarfélags, mætti á fundinn og kynnti innleiðingarferli Barnvæns sveitarfélags, aðgerðaáætlun Reykjanesbæjar og réttindafræðslu fyrir kjörna fulltrúa og starfsfólk sveitarfélaga á vegum UNICEF Akademíunnar sem er rafrænn fræðsluvettvangur UNICEF á Íslandi.

3. Reglur um þjónustu við börn og fjölskyldur – drög að breytingum (2022010182)

Vilborg Pétursdóttir, teymisstjóri barna- og fjölskylduteymis, mætti á fundinn og fór yfir tillögur að breytingum á reglum um þjónustu við börn og fjölskyldur sem eru hluti af reglum um félagslega þjónustu í Reykjanesbæ.

4. Umdæmisráð barnaverndar (2021120037)

Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs gerði grein fyrir fyrirhuguðum breytingum á barnaverndarþjónustu með gildistöku nýs ákvæðis um umdæmisráð í barnaverndarlögum nr. 80/2002 þann 1. janúar 2023. Samkvæmt lögunum verða umdæmisráð barnaverndar nýjar stjórnsýslunefndir sem fara með úrskurðarvald í ákveðnum barnaverndarmálum á vettvangi sveitarfélaga. Umdæmisráð verða skipuð þremur ráðsmönnum sem hafa ákveðna fagþekkingu, þ.e. félagsráðgjafa, sálfræðingi og lögfræðingi. Umdæmisráðin verða skipuð til fimm ára í senn, verða sjálfstæð í störfum sínum og mun flutningur mála fyrir umdæmisráðum áfram verða með sama hætti og fyrir barnaverndarnefndum. Öll sveitarfélög þurfa að hafa skipað umdæmisráð fyrir 1. október 2022.

Samkvæmt minnisblaði Þórdísar Elínar Kristinsdóttur teymisstjóra barnaverndar Reykjanesbæjar og Heru Óskar Einarsdóttur sviðsstjóra velferðarsviðs sem lagt var fyrir 1385. fund bæjarráðs Reykjanesbæjar verður kostnaðarsamara fyrir Reykjanesbæ að taka þátt í umdæmisráði miðað við þann fjölda mála sem barnavernd Reykjanesbæjar er að sinna á ári hverju.

Kostnaður við hvert mál miðað við málafjölda hjá barnaverndarnefnd Reykjanesbæjar 2019 – ágúst 2022 (ein fjölskylda telst 1 mál) á grundvelli fyrirliggjandi samningsdraga hefði orðið eftirfarandi:

2019: Samtals kr. 4.400.000
2020: Samtals kr. 2.350.000
2021: Samtals kr. 8.400.000
2022: Samtals kr. 9.135.000 (jan-ágúst)

Við þennan kostnað bætist ferðakostnaður nefndarmanna vegna ferða á milli landshluta, dagpeningar og útlagður kostnaður óski barnaverndarþjónusta eftir að umdæmisráð mæti á staðinn til að funda eða starfsmenn barnaverndarþjónustu þurfi að ferðast vegna fyrirtöku mála hjá umdæmisráði. Fyrir barnaverndarnefnd Reykjanesbæjar fóru 10 mál til úrskurðar 2019, 7 mál 2020 og 22 mál árið 2021. Af þessu sést að fjöldi úrskurðarmála getur verið mjög breytilegur milli ára.

Velferðarráð telur að endurskoða þurfi áætlaðan kostnað vegna umdæmisráða þar sem um verulega hækkun er að ræða frá núverandi kostnaði vegna barnaverndarnefnda sveitarfélaga. Á grundvelli þeirra breytinga sem orðið hafa á barnaverndarlögum væri æskilegt að mennta- og barnamálaráðuneytið gæfi út leiðbeinandi reglur um umdæmisráð barnaverndar.

5. Málefni flóttafólks (2022020555)

Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs kynnti stöðu mála varðandi endurskoðun samnings um samræmda móttöku flóttafólks.

6. Fjárhagsáætlun 2023-2026 (2022080148)

Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs fór yfir fjárhagsramma velferðarsviðs vegna fjárhagsáætlunar 2023.

7. Öldungaráð Reykjanesbæjar 2022-2026 (2022060326)

Tilnefningar hafa borist frá Reykjanesbæ, Félagi eldri borgara á Suðurnesjum og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja um fulltrúa í öldungaráði Reykjanesbæjar 2022-2026.

Fylgigögn:

Fulltrúar í öldungaráði Reykjanesbæjar 2022-2026

8. Mælaborð og tölulegar upplýsingar (2022010091)

Fjárhagsaðstoð

Í ágúst 2022 fengu 213 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð frá Reykjanesbæ, alls voru greiddar kr. 29.683.198. Í sama mánuði 2021 fengu 127 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð, alls voru greiddar kr. 19.495.343.

Sérstakur húsnæðisstuðningur

Í ágúst 2022 fengu alls 287 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélagsins, samtals kr. 3.972.726. Í sama mánuði 2021 fengu 277 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning, samtals kr. 3.845.453.

Áfrýjunarnefnd

Í ágúst var haldinn 1 fundur í áfrýjunarnefnd og 13 erindi lögð fyrir nefndina. 11 erindi samþykkt, 1 erindi var frestað og 1 erindi var synjað.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16:30. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 4. október 2022.