428. fundur

17.01.2024 13:00

428. fundur velferðarráðs var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 17. janúar 2024, kl. 13:00

Viðstaddir: Sigurrós Antonsdóttir formaður, Andri Fannar Freysson, Birna Ósk Óskarsdóttir, Eyjólfur Gíslason og Rannveig Erla Guðlaugsdóttir.

Að auki sátu fundinn Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs, Hilma H. Sigurðardóttir verkefnastjóri fjölmenningarmála og Íris Eysteinsdóttir ritari.

1. Reglur um félagsþjónustu - barnaverndarþjónusta (2022010182)

Þórdís Elín Kristinsdóttir teymisstjóri barnaverndarþjónustu mætti á fundinn og fór yfir tillögur að breytingum á reglum um barnaverndarþjónustu Reykjanesbæjar.

Velferðarráð þakkar Þórdísi kærlega fyrir kynninguna.

Velferðarráð hvetur til að brugðist verði við niðurfellingu 35. greinar barnaverndarlaga nr. 80/2002 er varðar úrræði gagnvart þeim sem starfa með börnum sem tekin var út í lok árs 2021. Ráðið telur mikilvægt að til séu skýrir verkferlar hjá Reykjanesbæ ef mál af þessu tagi koma upp. Það veitir öllum málsaðilum sem koma að slíku máli öryggi til að bregðast við og kemur í veg fyrir að huglægt mat hafi áhrif á ferlið eða nauðsynleg viðbrögð.

2. Svæðisbundið samráð gegn ofbeldi og öðrum afbrotum á Suðurnesjum (2023070081)

Hilma H. Sigurðardóttir verkefnastjóri fjölmenningarmála mætti á fundinn og fór yfir stöðuna á svæðisbundnu samráði gegn ofbeldi og öðrum afbrotum á Suðurnesjum sem var undirritað 27. nóvember 2023.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum, Grindavíkurbær, Reykjanesbær, Suðurnesjabær, Sveitarfélagið Vogar, Fjölbrautaskóli Suðurnesja, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, Heilsugæslan Höfða, Keilir, Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum og Sýslumaðurinn á Suðurnesjum stóðu að fundinum og undirrituðu í lok hans samstarfsyfirlýsingu um verkefnið Öruggari Suðurnes sem felst í því að hefja og formfesta svæðisbundið samráð um varnir gegn ofbeldi og öðrum afbrotum á Suðurnesjum.

Með því var stofnaður samráðsvettvangur samstarfsaðila á Suðurnesjum sem samanstendur af aðilum sem á einhvern hátt vinna að aðgerðum gegn ofbeldi eða þjónustu við þolendur á svæðinu. Með því sammælast samstarfsaðilarnir um að bera ábyrgð á gerð framkvæmdaáætlunar með aðgerðum sem vinna gegn ofbeldi og öðrum afbrotum á Suðurnesjum og að fylgjast í sameiningu með niðurstöðum greininga og mælinga í málaflokknum.

Settur hefur verið á laggirnar framkvæmdahópur sem vinnur að aðgerðum sem vinna að markmiði samráðsvettvangsins. Framkvæmdahópurinn vinnur nú að framkvæmdaáætlun fyrir verkefnið. Ein aðgerð snýr að opnun velferðarmiðstöðvar sem tekur á móti fólki sem hefur upplifað ofbeldi og sækist eftir stuðningi sem og að sinna fræðslu og forvörnum er varða ofbeldi. Opnun velferðarmiðstöðvar er í undirbúningi.

3. Samræmd móttaka flóttafólks - samningur (2022020555)

Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs kynnti uppfærð drög að samningi félags- og vinnumarkaðsráðuneytis við sveitarfélögin sem enn er í vinnslu, lokadrög liggja ekki fyrir.

4. Starfsáætlun velferðarsviðs 2024 (2023110335)

Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs kynnti drög að starfsáætlun velferðarsviðs 2024.

Verið er að vinna að lokafrágangi starfsáætlunar velferðarsviðs fyrir árið 2024, forgangsraða og samræma verkþætti og áherslur til samræmis við fjárhagsáætlun ársins.

Heildaráætlun sviðsins verður lögð fram á næsta fundi velferðarráðs.

Hjálagðar til kynningar eru starfsáætlanir stofnana og starfseininga velferðarsviðs sem eru hluti af þeirri heildaráætlun sem lögð verður fram.

5. 30 ára afmæli Reykjanesbæjar 11. júní 2024 - afmælissjóður (2024010135)

Reykjanesbær er 30 ára í ár og því ber að fagna. Í tilefni afmælisársins hefur verið opnað fyrir umsóknir í afmælissjóð sem allir geta sótt um styrk í vegna verkefna og viðburða sem tengjast afmælishátíðinni. Hvetur velferðarráð íbúa til að sækja um styrki á vef Reykjanesbæjar.

Fylgigögn:

Frétt um afmælissjóðinn á vef Reykjanesbæjar

Rafræn umsókn um styrk úr afmælissjóði Reykjanesbæjar

6. Mælaborð og tölulegar upplýsingar (2023030016)

Tölfræði og tölulegar upplýsingar vegna fjárhagsaðstoðar og sérstaks húsnæðisstuðnings í desember 2023.

Framfærsla

Í desember fengu 297 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð frá Reykjanesbæ, alls voru greiddar kr. 49.206.970. Sú upphæð er óeðlilega há, það virðist sem greiðsla vegna janúar 2024 sem var bókuð um áramót hafi verið sett á ranga bókunardagsetningu og telst því með í janúar. Sú upphæð var kr. 8.065.175.

Sveitarfélagið fær endurgreiðslu frá ríkinu að upphæð kr. 27.925.392 samkvæmt 15. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Í sama mánuði 2022 fengu 332 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð, alls voru greiddar kr. 49.816.741.

Fjöldi barna var 91 á 41 heimili.

Sérstakur húsnæðisstuðningur

Í desember fengu alls 320 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélagsins, samtals kr. 6.556.228. Í sama mánuði 2022 fékk 291 einstaklingur greiddan sérstakan húsnæðisstuðning, samtals kr. 4.995.609.

Áfrýjunarnefnd

Í desember var haldinn 1 fundur í áfrýjunarnefnd og 11 erindi lögð fyrir nefndina, 5 erindi samþykkt, 2 erindum frestað og 4 synjað.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15.31. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 23. janúar 2024.