443. fundur velferðarráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Grænásbraut 910 þann 8. maí 2025 kl. 13:00
Viðstaddir: Birna Ósk Óskarsdóttir varaformaður, Andri Fannar Freysson, Ásta Kristín Guðmundsdóttir, Eyjólfur Gíslason og Linda María Guðmundsdóttir.
Að auki sátu fundinn Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs, Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir, teymisstjóri virkni- og ráðgjafarteymis og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.
Sigurrós Antonsdóttir boðaði forföll og sat Linda María Guðmundsdóttir fundinn í hennar stað. Katrín Alda Ingadóttir fulltrúi ungmennaráðs boðaði forföll.
1. Skjólið, frístundastarf fatlaðra barna (2025010187)
Vilborg Pétursdóttir, teymisstjóri barna- og fjölskylduteymis, mætti á fundinn.
Sviðsstjóri velferðarsviðs óskar eftir heimild til að nýta núverandi aðstöðu leikskólans Drekadals að Grænásbraut 910, fyrir starfsemi Skjólsins við flutning leikskólans Drekadals í nýtt húsnæði sumarið 2025.
Aðstaða Skjólsins í 88 húsinu er orðin of lítil fyrir starfsemina og fyrirsjáanlegt að í núverandi aðstöðu verður ekki hægt að taka inn fleiri börn. Áætlað er að 5-8 fötluð börn sem eru í sértækum námsúrræðum menntasviðs þurfi pláss í Skjólinu í haust, til viðbótar við þau sem fyrir eru. Húsnæði Drekadals að Grænásbraut 910, sem er að losna í sumar, er kjörið fyrir starfsemi Skjólsins og ekki er gert ráð fyrir því að gera þurfi miklar breytingar á aðstöðunni til að mæta þörfum notenda Skjólsins. Húsnæðið er í góðu ásigkomulagi og mætir vel þörfum starfseminnar. Sérinngangur er í aðstöðuna og afmarkað útivistarsvæði.
Velferðarráð óskar eftir að bæjarráð verði við beiðni um að Skjólið fái húsnæðið sem leikskólinn Drekadalur er nú í að Grænásbraut 910 til umráða þegar leikskólinn flytur í nýtt húsnæði sumarið 2025.
2. Þjónusta við umsækjendur um alþjóðlega vernd – uppsögn samnings (2024100122)
Vinnumálastofnun hefur sagt upp þjónustusamningi við Reykjanesbæ um þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd.
Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs og Hilma H. Sigurðardóttir, teymisstjóri virkni- og ráðgjafarteymis, fóru yfir áhrif uppsagnar samningsins á rekstur og starfsmannahald á velferðarsviði.
3. Reglur um ferðaþjónustu fyrir fötluð börn á leikskólum - endurskoðun (2022010182)
Ólafur Garðar Rósinkarsson, verkefnastjóri í málefnum fatlaðs fólks, mætti á fundinn.
Lagt fram erindi frá íbúa þar sem óskað er eftir að reglur Reykjanesbæjar um ferðaþjónustu fyrir fötluð börn á leikskólum verði endurskoðaðar.
Velferðarráð óskar eftir áliti bæjarlögmanns á skyldum sveitarfélagsins varðandi akstursþjónustu fyrir fötluð leikskólabörn og felur sviðsstjóra velferðarsviðs að kynna málið fyrir leikskólafulltrúa og sviðsstjóra menntasviðs.
4. Gjaldskrá vegna ferðaþjónustu utan Reykjanesbæjar (2025050075)
Ólafur Garðar Rósinkarsson, verkefnastjóri í málefnum fatlaðs fólks, mætti á fundinn og fór yfir fyrirkomulag ferðaþjónustu á vegum sveitarfélagsins vegna ferða fatlaðs fólks utan Reykjanesbæjar. Rætt um hvort tilefni sé til að setja gjaldskrá vegna þjónustunnar.
Velferðarráð felur verkefnastjóra í málefnum fatlaðs fólks að afla frekari upplýsinga.
5. Fræðslustefna Reykjanesbæjar 2025-2028 - beiðni um umsögn (2025030588)
Bæjarráð óskar eftir umsögn um drög að fræðslustefnu Reykjanesbæjar 2025-2028. Fræðslustefnan gildir fyrir allt starfsfólk á öllum sviðum og starfsstöðum sveitarfélagsins.
Velferðarráð fagnar gerð fræðslustefnu og felur sviðsstjóra að koma athugasemdum ráðsins á framfæri.
6. Fjárhagsaðstoð og sérstakur húsnæðisstuðningur - tölulegar upplýsingar (2025020181)
Tölulegar upplýsingar vegna fjárhagsaðstoðar og sérstaks húsnæðisstuðnings í apríl 2025 lagðar fram.
Fjárhagsaðstoð
Í apríl 2025 fékk 121 einstaklingur greidda fjárhagsaðstoð til framfærslu frá Reykjanesbæ. Alls voru greiddar 18.947.189 kr. í fjárhagsaðstoð til framfærslu eða að meðaltali um 156.588 kr. á hvern einstakling. Fjöldi barna á framfæri foreldra/forráðamanna á fjárhagsaðstoð var 28.
Í sama mánuði 2024 fengu 202 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð til framfærslu frá Reykjanesbæ. Alls voru greiddar 30.440.423 kr. í fjárhagsaðstoð til framfærslu eða að meðaltali 150.695 kr. á hvern einstakling. Fjöldi barna á framfæri foreldra/forráðamanna á fjárhagsaðstoð var 60.
Velferðarráð lýsir ánægju sinni með þá markvissu og faglegu vinnu sem unnin er af ráðgjöfum virkni- og ráðgjafarteymis velferðarsviðs. Árangur hefur náðst með aukinni yfirsýn og skýrara verklagi. Mikilvægt er að fagna þessum framförum og árétta þann metnað sem starfsfólk hefur sýnt. Starfsfólk teymisins á sannarlega hrós skilið fyrir sín störf í þessum mikilvæga málaflokki.
Sérstakur húsnæðisstuðningur
Í apríl 2025 fengu 274 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélagsins. Samtals voru greiddar 6.858.851 kr.
Í sama mánuði 2024 fengu 313 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélagsins, samtals 6.750.137 kr.
Áfrýjunarnefnd
Í apríl 2025 voru haldnir 2 fundir í áfrýjunarnefnd og 15 erindi lögð fyrir nefndina. 12 erindi voru samþykkt, 1 erindi frestað og 2 erindum var synjað.
7. Mælaborð velferðarsviðs 2025 - fyrsti ársfjórðungur (2025020180)
Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs fór yfir mælaborð fyrsta ársfjórðungs ársins 2025.
8. Fjölsmiðjan á Suðurnesjum - ársfundur 2025 (2025050099)
Ársfundur Fjölsmiðjunnar á Suðurnesjum var haldinn 7. maí 2025. Ársreikningur og ársskýrsla Fjölsmiðjunnar fyrir árið 2024 lögð fram.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16:08. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 20. maí 2025.