Góður kennari kennir ekki aðeins með huganum heldur einnig hjartanu

Frá vinnufundi grunnskólakennara í Stapa í gær.
Frá vinnufundi grunnskólakennara í Stapa í gær.

Stjórnendur úr röðum Reykjanesbæjar héldu vinnufund með grunnskólakennurum í Stapa í gær. Til fundarins var stofnað til að eiga samtal við kennara, sem ákveðið var í heimsóknum fulltrúa bæjaryfirvalda til starfsfólks grunnskólanna í byrjun desember sl. þegar samningar kennara voru lausir og mikil óánægja í þeirra röðum. Vinnufundurinn var í anda Þjóðfundar.

Helgi Arnarson sviðsstjóri Fræðslusviðs opnaði fundinn og ræddi ástæður hans. Í máli Helga kom fram að góður árangur hefði náðst í grunnskólunum í Reykjanesbæ og hann skynjaði áræðni og baráttugleði í hópi kennara til að viðhalda þeim árangri. Hann vitnaði í bók frá Unesco þar sem fjallað er um hvað einkenni góðan kennara. Eitt barnanna sem spurt var svaraði: „Góður kennari kennir ekki aðeins með huganum heldur einnig hjartanu.“

Umræðuefni var skipt niður í fernt, Álag á kennara, Vinnuaðstaða og aðbúnaður, Samskipti og upplýsingagjöf, Viðvera, vinnutími og vinnumat. Kennarar voru hvattir til að skrifa niður allt sem kom upp í hugann, en ekki dæma, hafa áhyggjur af framkvæmdum, festast í fortíð né missa einbeitingu og orku, eins og Hanna María Jónsdóttir mannauðs- og gæðastjóri Reykjanesbæjar lagði áherslu á við þátttakendur.

Mikið af góðum hugmyndum kom fram á fundinum og mun Fræðslusvið vinna úr þeim.