Hagstætt gjald fyrir hádegisverð og síðdegisvistun í Reykjanesbær

Frá hádegisverði í Heiðarskóla.
Frá hádegisverði í Heiðarskóla.

 Gjald fyrir hádegisverð og síðdegisvistun grunnskólabarna er næst lægst í Reykjanesbæ af þeim 15 sveitarfélögum sem Alþýðusamband Íslands skoðaði og birti á vef sínum í dag. Hæst er gjaldið í Garðabæ en lægst í Vestmannaeyjum. Þá er verð á hádegismat fyrir grunnskólabörn með því lægsta í Reykjanesbæ.

Alþýðusamband Íslands hefur gert samanburð á gjaldi fyrir hádegisverð og síðdegisvistun annars vegar og hádegisverð hins vegar í 15 fjölmennustu sveitarfélögum landsins. Í Reykjanesbæ er kostnaður fyrir eitt barn í síðdegisvistun með hádegismat og hressingu 24.565 krónur og hækkaði um 5% milli ára. Hæst er gjaldið í Garðabæ, 36.484 krónur og hækkaði um 2% milli ára. Lægst er gjaldið í sveitarfélaginu Skagafirði, 24.234 krónur og hækkaði um 6% milli ára. Mesta prósentuhækkunin milli ára var hjá Reykjavíkurborg, 11%.

Hádegisverður fyrir grunnskólabarn í Reykjanesbæ kostar 385 krónur. Lægst er verðið í Sveitarfélaginu Árborg, 349 krónur en hæst í Ísafjarðarbæ, 492 krónur. Verðmunurinn er 41%. Þá er systkinaafsláttur einnig með hagstæðu móti í Reykjanesbæ, 50% afsláttur fyrir 2. barn og 100% afsláttur fyrir 3. barn. Aðeins í Reykjavík er afslátturinn meiri, 75% fyrir 2. barn og 100% fyrir 3. barn.