Kenndi grunnskólabörnum danskan framburð

Marianne Schöttel dönskukennari á kveðjustundu með Helga Arnarsyni sviðsstjóra Fræðslusviðs
Marianne Schöttel dönskukennari á kveðjustundu með Helga Arnarsyni sviðsstjóra Fræðslusviðs

Marianne Schöttel dönsku- og þýskukennari kvaddi Reykjanesbæ í vikunni eftir að hafa starfað hjá skólaþjónustu Reykjanesbæjar í vetur við dönskukennslu í grunnskólunum. Hún segir börnin sem hún kynntist í skólunum vera mjög almennilega og kurteisa, mun meira en hún þekkir í öðrum skólum. Einnig hafi viðhorfið gagnvart dönskunáminu verið betra en hún átti von á.

Marianna kom til Íslands sl. haust fyrir tilstuðlan dansk-íslensks samstarfsverkefnis um stuðning við dönskukennslu á Íslandi. Fræðslusvið Reykjanesbæjar og Menntavísindasvið við Háskóla Íslands gerðu samning vegna starfa og dvalar dansks farkennara í skólum í þeim sveitarfélögum sem skólaþjónustan sinnir.

Verkefnið snýst um að auka þekkingu íslenskra grunnskólanema á danskri tungu með því að heyra málið talað af innfæddum einstaklingi og eiga samskipti við. Að sögn Marianne er löng hefði fyrir talþjálfun í danska skólakerfinu og er bæði tal og hlustun æfð í öllu skólastarfi. Reynslan af því að fá æfingu í hlustun og tali sé allt önnur af hendi innfædds og því sé verkefni á borð við þetta tilkomið.

„Börnin í skólunum hér á svæðinu eru bara nokkuð góð í dönsku, þó kunnátta þeirra sé auðvitað misjöfn. Það er ekki heilt yfir að þau vilji ekki læra dönsku eins og ég hafði heyrt. En þekking þeirra er meiri í ritmáli en talmáli og hlustun, en það helgast m.a. af því að þannig er tungumálakennslan byggð upp.“

Meiri kurteisi og meiri fegurð en sögusagnir gefa til kynna

Marianne tók skýrt fram að börnin sem hún kynntist í skólunum væru mjög almennileg og kurteis. „Mér fannst ég alltaf vera velkomin því þau opnuðu hurðar fyrir mig og gerðu ýmsa svona smáhluti sem sýndu mér að mér væri vel tekið, væri velkomin. Mér leið mjög vel hér.“

Marianne segist líka hafa allt aðra sýn á svæðið en hún hafði verið upplýst um. „Ég las í bók í Lonely Planet seríunni að fólk ætti að halda sig frá Keflavík nema það væri að fara snemma í flug. Ég velti því fyrir mér hvert ég væri eiginlega að fara. Svo fær maður heldur ekki á tilfinninguna hvað svæðið býður upp á þegar maður stígur út úr flugvélinni. En eftir að hafa farið hér um, m.a. með mína gesti, er upplifunin allt önnur. Reykjanesið er svo fallegt og ekki síðra en önnur svæði landsins sem vekja athygli.“

Skólaþjónustan þjónustar grunnskólana í Sandgerði og Garði, auk skólanna í Reykjanesbæ svo Marianne hefur flakkað á milli skólanna í allan vetur.

Í kveðjugjöf fékk Marianne ljósmyndabók Oddgeirs Karlssonar af Reykjanesi. Hún færði skólaþjónustunni ævintýrið um Hans klaufa eftir H.C. Andersen en það fjallar m.a. um að fá samþykki fyrir því að vera öðruvísi og pínulítið skrítinn, sem Marianne finnst góður boðskapur.