Kynning á nýjum grunn- og leikskóla sem byggja á í Dalshverfi

Úr tillögu Arkís sem bygginganefnd valdi. Mynd: Arkís.
Úr tillögu Arkís sem bygginganefnd valdi. Mynd: Arkís.

Kynning verður á nýjum grunn- og leikskóla í sal Akurskóla mánudaginn 20. mars kl. 17:30. Á sama tíma verður blásið til nafnasamkeppni um nafn á nýja skólann sem staðsettur verður í Dalshverfi í Innri Njarðvík.

Farið verður yfir hvernig staðið var að undirbúningi hönnunar og tillaga arkitektastofunnar Arkís kynnt, en ákveðið var að velja tillögu Arkís af þeim fimm sem bárust. Samdóma álit bygginganefndar var að velja tillögu Arkís til að vinna áfram með. Í þeirri tillögu þykja öll kennslurými mjög vel útfærð og að hugsað sé vel fyrir aðgengi og aðgangsstýringu, sér í lagi í tengslum við rýmin í hjarta byggingarinnar. Þar er gert  ráð fyrir félagsmiðstöð, tónlistarrými, fjölnota sal og matsal. Þá þykir góð tenging á milli leikskólans, yngsta stigs grunnskólans og frístundar, en skólinn verður bæði leik- og grunnskóli.

Í lokin gefst færi á að leggja fram fyrirspurnir.