List fyrir alla í grunnskólum Reykjanesbæjar

Frá uppsetningu Akurskóla á þeirra verkefni.
Frá uppsetningu Akurskóla á þeirra verkefni.

Hefðbundið skólastarf í öllum 9. bekkjum grunnskólanna í Reykjanesbæ var brotið upp í dag og gær en þá fór fram vinna í hinum ýmsum listasmiðjum undir handleiðslu nemenda úr Listkennsludeild Listaháskóla Íslands (LHÍ). Verkefnið heitir List fyrir alla og er í fyrsta sinn sem það er unnið með þessum hætti í grunnskólunum. 

Farið er í hin ýmsu listform innan verkefnisins, sviðslist (leiklist og dans), tónlist, myndlist, hönnun og byggingalist, kvikmyndagerð og bókmenntir, eftir því sem við á. Nemendum var skipt í hópa og vann hluti þeirra í sínum skóla og aðrir unnu í sameiginlegri smiðju í 88 Húsinu.

Í Akurskóla var unnið með myndlist, leiklist og tónlist og afraksturinn sýndur á sal skólans í dag fyrir nemendur í 3. bekk. Um var að ræða stutt leikverk þar sem blandað var saman vinnu þeirra sem unnu í myndlistinni, sviðsmynd/bakgrunn, sem hreyfðist í tak við tímabelti sem leikendur fóru á. Undir var svo spiluð tónlist eftir nemendur. 

Í Myllubakkaskóla voru 32 nemendur að ljúka sínu verki og hengja upp ásamt nemendum í Listkennsludeildinni þegar ljósmyndara bar að garði. Verkið minnir á bútasaum en það er samsett úr sexhyrndum myndverkum sem hvert táknaði heim. Hver nemandi gerði tvo heima, annan manngerðan og hinn úr náttúrunni. Að auki sagaði hver nemandi út tréfígúru sem fundinn var staður í þeim heimi sem hún passaði best. Síðan var rætt um verkið og bútarnir saumaðir saman.

Verk nemenda verða til sýnis í hverjum skóla fyrir sig og eru foreldra nemenda í 9. bekk sérstaklega hvattir til að kynna sér verkin og vinnuna.

List fyrir alla er á forræði mennta- og menningarmálaráðuneytis og er ætlað að velja og miðla listviðburðum til barna og ungmenna um allt land og jafna þannig aðgengi barna á grunnskólaaldri að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum óháð búsetu og efnahag. Í ár var verkefnið unnið með þeim hætti að nemendur úr Listkennsludeild LHÍ fengu að spreyta sig í kennslu og nutu aðstoðar listgreinakennara í grunnskólunum. 

Hér má nálgast frekari upplýsingar um verkefnið List fyrir alla.

List fyrir alla í Myllubakkaskóla   List fyrir alla í Myllubakkaskóla