Listahátíð barna er hafin

Friðrik Dór setti listahátíð barna 2017 með nemendum í 4. bekkjum grunnskólanna í Reykjanesbæ.
Friðrik Dór setti listahátíð barna 2017 með nemendum í 4. bekkjum grunnskólanna í Reykjanesbæ.

Það voru glöð börn sem settu 12. listahátíð barna í Duus Safnahúsum í dag. Allir leikskólarnir tíu, grunnskólarnir sex, Tónlistarskólinn, dansskólarnir í Reykjanesbæ og listnámsbraut Fjölbrautaskóla Suðurnesja taka þátt í hátíðinni, sem stendur til 21. maí. Flottur fjölskyldudagur verður 6. maí með skemmtilegum viðburðum um allan bæ. Þá verður hæfileikahátíð grunnskólanna, þar sem úrval glæsilegra árshátíðaratriða verða sýnd, ásamt atriðum frá dansskólunum og Tónlistarskólanum, í Stapa á morgun, 5. maí.

Dýrin mín stór og smá er yfirskrift hátíðarinnar í ár og fengu þátttakendur frjálsar hendur með þemað. Hugarflugi barnanna eru greinilega engar skorður settar og fjölbreytileiki dýranna eftir því. Leikskólabörn sýna í listasafni Reykjanesbæjar. Nemendur úr 4. bekkjum grunnskólanna fengu það verkefni að búa til fugla fyrir hátíðina og eru þeir sýndir í Gryfjunni. Þar hefur sköpunargleðin einnig verið óþrjótandi. Nemendur listnámsbrautar sýna svo í Stofunni í Bryggjuhúsi. Þó þau séu ekki beinlínis börn lengur „byggja þeir án efa listsköpun sína á því veganesti sem þeir hlutu á fyrri skólastigum, segir í sýningarskrá. „Um leið geta verk þeirra orðið yngri nemendum innblástur.“

Sýningarnar standa til 21. maí og er opið alla daga kl. 12 - 17 í Duus Safnahúsum.

Hér má nálgast dagskrá Listahátíðar barna í heild sinni.