Reykjanesbær óskar eftir tilboðum í einingaverð á námsgögnum

Reykjanesbær mun útvega grunnskólanemendum gjaldfrjáls námsgögn frá næsta hausti.
Reykjanesbær mun útvega grunnskólanemendum gjaldfrjáls námsgögn frá næsta hausti.

Örútboð er nú í gangi vegna samþykktar um gjaldfrjáls námsgögn til grunnskólabarna í Reykjanesbæ frá hausti 2017.  Bæjarráð samþykkti tillögu fræðsluráðs um að veita öllum grunnskólabörnum nauðsynleg námsgögn frá og með hausti 2017 á fundi sínum 11. maí sl. Reykjanesbær er fyrst af stærri sveitarfélögum landsins til að bjóða upp á gjaldfrjáls námsgögn. Með því að smella hér opnast Útboðsvefur Ríkiskaupa

Nokkur umræða hefur verið um gjaldfrjáls námsgögn til barna í grunnskólum landsins. Barnaheill hefur m.a. vakið á því athygli að annað brjóti í bága við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem kveður m.a. á um jöfnuð allra, óháð efnahag, litarhætti og aðstæðum. Samtökin Heimili og skóli hafa einnig vakið athygli á málefninu, sem og ýmis hagsmunasamtök og foreldrar grunnskólabarna. Fræðsluráð Reykjanesbæjar hóf að vinna að málinu snemma á þessu ári sem fékk lyktir með samþykki bæjarráðs.

Að sögn Helga Arnarsonar sviðsstjóra Fræðslusviðs hafa þó nokkrar fyrirspurnir borist vegna málsins frá öðrum stórum sveitarfélögum. Segist hann vonast til þess að reynsla þeirra hvetji fleiri stærri bæjarfélög til þess að bjóða upp á gjaldfrjáls námsgögn. Góð reynsla af því sé bæði á Ísafirði og í Sandgerði þar sem það fyrirkomulag hefur verið í mislangan tíma. „Auk þess sem gjaldfrjáls námsgögn styður við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem Íslendingar hafa staðfest aðild sína að, þá styður það einnig við fjölskyldustefnu Reykjanesbæjar. Þetta skref er því liður í því að vinna gegn mismunun og styðja börn í að njóta jafnræðis í námi.“