Ungmenni í Vinnuskólanum ánægð með „Verknámssmiðjur – Látum verkin tala“

Unglingar í Vinnuskólanum kynnast rafiðn í verknámssmiðjum. Ljósmynd: Víkurfréttir
Unglingar í Vinnuskólanum kynnast rafiðn í verknámssmiðjum. Ljósmynd: Víkurfréttir

Alls 60 unglingar tóku þátt í „Verknámssmiðjum – Látum verkin tala“ í gegnum Vinnuskólann í sumar. Í könnun sem gerð var meðal þátttakenda sögðu 88% smiðjurnar verða mjög eða frekar áhugaverðar. Verknámssmiðjurnar sem þátttakendur höfðu tök á að kynnast hjá Fjölbrautaskóla Suðurnesja (FS) voru rafeindavirkjun, textíl, háriðn, rafiðn og húsasmíði.

Í ár voru verknámssmiðjurnar haldnar dagana 18. og 19. júní. Smiðjurnar stóðu til boða fyrir alla nemendur sem voru að ljúka 9. bekk og störfuðu í Vinnuskólanum. Verknámssmiðjurnar stóðu einnig þátttakendum í vinnuskólanum í Sandgerði og Garði til boða. Tilgangur verkefnisins er að gefa ungmennum kost á að reyna á eigin skinni að vinna verkefni tengd áðurnefndum iðngreinunum. Þannig fá þau góða innsýn í fjölbreytt störf tengd smiðjunum.
Litið er á samstarfsverkefnið sem samfélagslegt verkefni. Nemendur fái enn betri kynningu á þeim námsleiðum sem eru í boði í verknámi í FS.
Verkefnið fékk styrk frá eftirtöldum félögum og fyrirtækjum á Suðurnesjum: FIT( félagi iðn- og tæknigreina), HS Veitum, Isavia og Verslunarmannafélagi Suðurnesja.

Þetta er í annað sinn sem „Verknámssmiðjur – Látum verkin“ tala stendur unglingum í Vinnuskólanum til boða. Í apríl 2016 var samþykkt í fræðsluráði Reykjanesbæjar að fara af stað með verkefni sem yrði verknámskynning sem hluti af vinnuskóla. Verkefnið yrði samstarfsverkefni Fræðslusviðs, Umhverfissviðs og Fjölbrautarskóla Suðurnesja. Mikill ánægja er meðal stjórnenda FS og starfsmanna Vinnuskólans með verkefnið, ekki síður en ungmennanna sjálfra.

Hér má sjá mynd af þátttakanda í verknámssmiðjum kynnast logsuðu