Verkefnið Skólaslit fær viðurkenningu frá IBBY

Sunnudaginn 15. maí 2022 veitti Íslandsdeild IBBY sínar árlegu viðurkenningar fyrir framlög til barnamenningar, Vorvinda, við athöfn í Gunnarshúsi, húsi Rithöfundarsambandsins.

Frá árinu 1987 hefur IBBY á Íslandi veitt einstaklingum og stofnunum árlegar viðurkenningar fyrir framlag til barnamenningar á Íslandi. Viðurkenningin er kennd við vorvinda og er ætlað að vekja athygli á verkum og starfsemi sem hleypir ferskum og endurnærandi vindum inn í íslenska barnamenningu og því sem vel er gert innan barnamenningar.

Að þessu sinni fékk lestrarupplifunin Skólaslit Vorvindaviðurkenningu IBBY 2022. Stýrihópur Skólaslita tók við viðurkenningunni fyrir hönd verkefnisins þau Ari Yates myndskreytir, Heiða Ingólfsdóttir kennsluráðgjafi Suðurnesjabæjar og Voga, Kolfinna Njálsdóttir deildarstjóri skólaþjónustu Reykjanesbæjar og Ævar Þór Benediktsson rithöfundur. Anna Hulda Einarsdóttir kennsluráðgjafi hjá Reykjanesbæ sem situr í stýrihópnum var fjarverandi og tók Helgi Arnarson sviðstjóri fræðslusviðs við viðurkenningunni í hennar stað.

Lestrarupplifunin Skólaslit stóð yfir allan októbermánuð 2021 í grunnskólum Reykjanesbæjar og var vel tekið af nemendum, foreldrum og kennurum hér sem og um allt land. Einnig tóku Fjörheimar félagsmiðstöð ríkan þátt í verkefninu ásamt Bókasafni Reykjanesbæjar. Samstarfið gekk vel og er gert ráð fyrir að framhald verði á því nú í haust. Stýrihópur Skólaslita er þakklátur og auðmjúkur fyrir þessa viðurkenningu og hlakkar til nýrra verkefna á komandi hausti.

Nánar um Vorvindaviðurkenningar 2022 má finn hér

 

f.h. Skólaslita

Kolfinna Njálsdóttir, verkefnastjóri Skólaslita