Heilsuleikskólinn Garðasel fékk frábæra umsögn

Markvisst er unnið með læsi í heilsuleikskólanum Garðaseli ásamt öðrum þáttum í skólastarfi
Markvisst er unnið með læsi í heilsuleikskólanum Garðaseli ásamt öðrum þáttum í skólastarfi

Niðurstaða gæðamats sem Menntamálastofnun gerði fyrir Mennta- og menningarmálaráðuneytið  á starfi Heilusleikskólans Garðasels sl. vor var sú að af 21 lið sem kannaður var, voru 15 metnir sem mjög gott verklag sem samræmist fyllilega lýsingu á gæðastarfi. Þrír þættir voru metnir þannig að styrkleikar eru meiri en veikleikar, gott verklag þar sem flestir þættir eru í samræmi við lýsingu á gæðastarfi. Stjórnendur eru að vonum mjög ánægðir með niðurstöðurnar

Ingibjörg Guðjónsdóttir leikskólastjóri Garðasels og Sif Stefánsdóttir aðstoðarleikskólastjóri eru mjög stoltar af því starfi sem unnið er í leikskólanum . „Þó við vitum að starfsfólk  leikskólans sé  að gera góða hluti er samt sem áður alltaf gott að fá góða umsögn frá utanaðkomandi aðila. Að sama skapi er líka gott að fá ábendingar um það sem betur má fara og út frá því var gerð umbótaáætlun sem verður í vinnslu allt til haustsins 2020.“

Eins og fram kemur í lokaorðum skýrslu matsaðila, kom fram að Heilsustefna leikskólans birtist mjög vel í starfinu og er markvisst unnið með framtíðarsýn Reykjanesbæjar um læsi og stærðfræði. Mikið sé lagt upp úr góðu samstarfi við foreldra, þeir séu ánægðir með leikskólann og telja að börnunum líði vel. Þeir eru einnig ánægðir með upplýsingagjöf frá leikskólanum um starfið og börnin. Á vettvangi mátti greina virðingu og umhyggju fyrir börnunum og samvinna var góð. Skólabragur er góður og starfshópurinn hefur metnað fyrir góðu starfi. Til fyrirmyndar er hvernig deildarstjórar skipuleggja og leiða starf á deildum með vikulegum áætlunum. Til fyrirmyndar er einnig hvernig staðið er að sérkennslu og stuðningi við starfsfólk sem sinnir sérkennslu. Í skýrslunni var einnig bent á að auka þarf lýðræðislega þátttöku barna í skólastarfinu. Skipuleggja þarf innra mat leikskólans og vinna það út frá áætlununum þar sem markvisst er fylgst með hvernig gengur að vinna að markmiðum skólanámskrár út frá fyrirfram ákveðnum viðmiðum.

Stjórnendur leikskólans telja að það sé metnaður starfsfólksins á gólfinu sem stendur og fellur með að starfið gangi svona vel. Þær segja starfsfólkið vera frábært og samhent sem brettir upp ermarnar og framkvæmir fjölbreytt og skemmtilegt starf í faglegum leikskóla.

Matsþættir og niðurstaða mats