Samið um leikskóla í Drekadal

Reykjanesbær hefur samið við verktakafyrirtækið Hrafnshóll um byggingu á nýjum sex deilda leikskóla við Drekadal í Innri-Njarðvík.

Um er að ræða 1.200 fermetra byggingu sem er reist með forsmíðuðum timbureiningum sem eru framleiddar í Eistlandi við bestu aðstæður innandyra. Byggingartíminn er skammur ef miðað er við staðbyggð hús, og minni hætta á m.a. rakaskemmdum í byggingum vegna þess tíma sem tekur að byggja utandyra við íslenskar veðuraðstæður.

Af frumkvæði verktakans var tekin sú ákvörðun að sækja um Svansvottun fyrir leikskólann, en það gerir það að verkum að öll byggingarefni hússins verða að standast skoðun Umhverfisstofnunar, sem er eftirlitsaðili Svansins á Íslandi. Það mun tryggja betri byggingu, með meira eftirliti, meiri rýni á byggingarefni og byggingarhlutum, auk þess sem leikskólinn verður betri íverustaður fyrir börn og vinnustaður fyrir kennara. Leikskólinn í Drekadal verður því einn af fyrstu leikskólum á Íslandi til að hljóta Svansvottun, og verður fyrsta forsmíðaða timbur-einingahúsið til að fá slíka vottun, gangi áætlanir eftir.

Áætluð verklok ert í apríl 2025 en Umhverfis- og framkvæmdasvið Reykjanesbæjar mun hafa yfirumsjón með verkefninu fyrir hönd sveitarfélagsins. 

Fólk á mynd:  Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Sigurður Garðarsson, Kjartan Már Kjartansson og Ingibjörg Bryndís Hilmarsdóttir