Sannarlega gjöf sem gleður

Bryndís Guðmundsdóttir ásamt fræðslustjóra, leikskólafulltrúa, leikskólastjórum og starfsmönnum lei…
Bryndís Guðmundsdóttir ásamt fræðslustjóra, leikskólafulltrúa, leikskólastjórum og starfsmönnum leikskólanna og skólaþjónustu sem veittu gjöfinni móttöku.

Bryndís Guðmundsdóttir talmeinafræðingur kom nýverið færandi hendi með veglega gjöf til allra leikskóla í Reykjanesbæ. Um er að ræða námsefni hennar „Lærum og leikum með hljóðin“ ásamt aukaefni. Þar á meðal var púsl, límmiðar og vinnusvuntur, sem styðja við hljóðanámið með fallegum stafamyndum.

Námsefni Bryndísar hefur það að markmiði að stuðla að bættum málþroska barna og undirbúa þau fyrir lestur. Efninu fylgja smáforrit og er ætlað öllum barnafjölskyldum og skólum.  Hægt að fá upplýsingar um efnið og skoða smáforritin með því að smella hér.

Námsefnið byggir á fagþekkingu talmeinafræðinnar, rannsóknum og reynslu Bryndísar af því að vinna með börnum, foreldrum og fagfólki skóla. Efnið hefur hlotið ýmsar viðurkenningar og er það aðgengilegt á Bókasafni Reykjanesbæjar.

Bryndís er okkur af góðu kunn og hefur verið viðloðandi skólastarf í Reykjanesbæ. Leik- og grunnskólar Reykjanesbæjar hafa um langt skeið fengið að njóta þekkingar hennar og reynslu sem talmeinafræðingur. Reykjanesbær þakkar Bryndísi og hennar styrktaraðilum kærlega fyrir þessa góðu og mikilvægu gjöf til allra barna. Þetta er sannarlega gjöf sem gleður.

Hér má sjá Helga Arnarson sviðsstjóra fræðslusviðs, Bryndísi Guðmundsdóttur talmeinafræðing og Ingibjörgu Bryndísi Hilmarsdóttur leikskólafulltrúa