Leikskólinn Tjarnarsel verðlaunaður

LeikskólinnTjarnarsel hlaut Foreldraverðlaun Heimilis og skóla sem afhent voru í 28. sinn við hátíðlega athöfn í Safnahúsinu við Hverfisgötu þriðjudaginn 30. maí sl. Verðlaunin hlaut skólinn fyrir verkefnið „Áskorun og ævintýri – sjálfboðastarf í grænum skóla“.

Tekið var við tilnefningum frá almenningi en sérstök dómnefnd fór yfir allar tilnefningar líkt og vant er og valdi verðlaunahafa. Þórdís Jóna Sigurðardóttir, forstjóri Menntamálastofnunar ávarpaði samkomuna og afhenti verðlaunin. Við óskum öllu Tjarnarselssamfélaginu til hamingju með þessi glæsilegu verðlaun.