Tjarnarselsbörn vilja söguskilti við Stein og Sleggju

Margrét Kolbeinsdóttir deildarstjóri á Sunnuvelli aðstoðaði börnin við að koma hugmyndinni til bæja…
Margrét Kolbeinsdóttir deildarstjóri á Sunnuvelli aðstoðaði börnin við að koma hugmyndinni til bæjarstjóra.

Leikskólabörn af Sunnuvöllum á Tjarnarseli, sem er deild elstu nemenda skólans, komu á fund bæjarstjóra í gær með hugmynd. Þau vilja að sett verði upp skilti við útsýnispallinn milli tröllanna Steins og Sleggju við Bakkalág þar sem lesa má um tilurð pallsins og söguna. Útsýnispallurinn var einmitt hugmynd sem börn af leikskólanum Tjarnarseli komu með til bæjaryfirvalda vorið 2005. Börnin færðu bæjarstjóra einnig fullt af fallegum tröllamyndum og sungu skemmtilegt skólalag.

Leikskólabörn og starfsfólk á Tjarnarseli eru dugleg að fara í vettvangsferðir um sitt nánast umhverfi enda er hreyfing einn af áhersluþáttum í starfi leikskólans. Í gegnum árin hefur sjórinn neðan við Bakkalág heillað. Þegar gerð var landfylling og byggður varnargarður neðan við Hafnargötu til verndar landbroti hættu börnin hins vegar að sjá til sjávar, sem þeim fannst miður. Þau komu því á fund bæjaryfirvalda með hugmynd að útsýnispalli milli steintröllanna Steins og Sleggju sem prýða varnargarðinn. Hugmynd þeirra má sjá í teikningu hér að neðan sem Gréta Eiríksdóttir starfsmaður á Tjarnarseli gerði eftir hugmynd barnanna.

Nú hefur útsýnispallurinn staðið í rúm 10 ár og börnin vilja gjarnan sjá söguskilti við útsýnispallinn í anda þeirra söguskilta sem eru að finna við Strandleiðina. Þær ætti að vera sagan á bak við pallinn, ásamt myndum. Þá vilja börnin gjarnan að grindverkið umhverfis pallinn verði þétt svo ekki sé hætta á að börn troði sér í gegn og detti í sjóinn.

Leikskólabörn af Tjarnarseli komu með hugmynd til bæjarstjóra  Börn af leikskólanum Tjarnarseli áttu hugmynd að útsýnispallinum við Bakkalág