„Við bjóðum góðan dag – alla daga“

Kornungir skákmenn í leikskólanum Gimli.
Kornungir skákmenn í leikskólanum Gimli.

Dagur leikskólans er haldinn hátíðlegur 6. febrúar ár hvert, nú í 10. sinn. Dagurinn er merkisdagur í íslenskri leikskólasögu því þann dag árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara sín fyrstu samtök. Í tilefni dagsins munu leikskólar Reykjanesbæjar halda upp á daginn með ýmsu móti og yfirskriftin er kjörorð dagsins „Við bjóðum góðan dag – alla daga“.

„Þessi fallega og hlýja kveðja segir mikið til um þann anda sem ríkir í starfinu sem fram fer í leikskólum landsins. Kveðjan ber með sér gleði og kærleika og að einstaklingar með fjölbreyttar og ólíkar þarfir séu velkomnir til leiks og náms í leikskólann," segir Ingibjörg Bryndís Hilmarsdóttir leikskólafulltrúi Reykjanesbæjar.

Forseti Íslands mun afhenda hvatningarverðlaunin Orðsporið við hátíðlega athöfn í leikskólanum Hofi við Gullteig í Reykjavík kl. 13:30. Hvatningarverðlaunin eru veitt þeim sem þykja hafa skarað framúr í því að efla orðspor leikskólastarfs í landinu og hafa unnið ötullega í þágu leikskóla og leikskólabarna.

Félagar í Félagi leikskólakennara eru um 2.200 og tæplega 500 manns eru í Félagi stjórnenda leikskóla.