Kölku heimilað að hefja flokkun úrgangs við heimili í Reykjanesbæ

Allur úrgangur úr Ráðhúsi hefur verið flokkaður frá 2013, með viðeigandi flokkunarílátum í sorpgeym…
Allur úrgangur úr Ráðhúsi hefur verið flokkaður frá 2013, með viðeigandi flokkunarílátum í sorpgeymslu við húsið.

Bæjarráð samþykkti á fundi sínum í morgun að Kalka, Sorpeyðingarstöð Suðurnesja sf. (SS) fái heimild til að hefja flokkun úrgangs á næsta ári við heimili í Reykjanesbæ.

Þann 4. maí sl. sendi Jón Norðfjörð framkvæmdastjóri SS bréf til bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, fyrir hönd stjórnarinnar, með tillögu þess efnis að farið verði í flokkun úrgangs við heimili á Suðurnesjum.

Í tillögu stjórnar SS segir:

„Að tekið verði upp tveggja tunnu kerfi, grá og græn tunna, þar sem gráa tunnan er fyrir almennan úrgang, lífrænan o.fl. sem ekki á samleið með endurvinnsluefni. Efni í gráu tunnunni fer í brennslu. Græna tunnan er fyrir blandaðan úrgang til endurvinnslu. Blandaður úrgangur mundi samanstanda af dagblöðum og tímaritum, bylgjupappa og sléttum pappa, fernum hvers konar, plastumbúðum og minniháttar málmhlutum. Blandaði úrgangurinn fer í móttökustöð þar sem hann er flokkaður og sendur í endurvinnslu.“

Stjórn SS óskaði eftir því að bæjarstjórnirnar á Suðurnesjum taki tillöguna til formlegrar afgreiðslu.

Fundargerð bæjarráðs Reykjanesbæjar frá því í morgun fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 6. júní nk.