Umhverfisstofnun boðar verkfræðilega úttekt á starfsemi United Silicon hf.

Verksmiðja United Silicon hf. í Helguvík. Mynd af vef stofnunarinnar, silicon.is.
Verksmiðja United Silicon hf. í Helguvík. Mynd af vef stofnunarinnar, silicon.is.

Umhverfisstofnun stendur við kröfu sína gagnvart kísilverksmiðju United Silicon hf. í Helguvík um að fram skuli fara verkfræðileg úttekt á hönnun og rekstri verksmiðjunnar. United Silicon hf. telur kröfu Umhverfisstofnunar íþyngjandi en stofnunin telur hins vegar jákvætt að rekstraraðili vinni að því að greina vandamál í rekstri verksmiðjunnar og „setji fram úrbótatillögur bæði með samstarfi við framleiðanda mengunarvarnabúnaðar og með öðrum utanaðkomandi sérfræðingum," eins og segir í frétt á vef Umhverfisstofnunar, sem birt var í dag. Með því að smella á þennan tengil opnast fréttin.

United Silicon hf. hafði óskað eftir sex mánaða fresti til að bæta úr frávikum í rekstri. Um 300 kvartanir hafa borist Umhverfisstofnun vegna mengunar frá verksmiðjunni. Á þá ósk féllst Umhverfisstofnun ekki og bendir á að umfang eftirlits með verksmiðjunni sé fordæmalaus vegna umfangsmikilla og endurtekins rekstrarvanda. Þá hafi reksturinn sérstöðu er varði umfang framleiðslu og eðli sem og nálægð við íbúabyggð. „Fram skal fara verkfræðileg úttekt á hönnun og rekstri Sameinaðs Sílikons hf. hvað varðar þörf á úrbótum á mengunarvarnabúnaði og mengunarvörnum sem og orsök og upptök lyktarmengunar," segir í frétt.

United Silicon hf. mun bera kostnað af úttektinni í samræmi við 27. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Þar til úttekt hefur farið fram og niðurstaða liggur fyrir  er rekstur kísilverksmiðjunnar takmarkaður við rekstur eins ljósbogaofns sbr. 3. tölulið 1. mgr. 26. gr. sömu laga. Með því að smella á þennan tengil opnast lög nr.7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.