Líf og fjör á 17. júní í Reykjanesbæ

Það verður fjör í bænum á 17. júní í ár þrátt fyrir að gera hafi þurft breytingar í ljósi tilmæla frá Almannavörnum til sveitarfélaga um fjöldatakmarkanir. Segja má að dagskrá verði bæði með hefðbundnu og óhefðbundnu sniði að þessu sinni og er það von bæjaryfirvalda að fólk taki höndum saman um að eiga góðan dag með fjölskyldu, nágrönnum og vinum og njóti þess sem í boði er.

Hátíðardagskrá í beinu streymi úr skrúðgarðinum
Megin breytingin er sú að eftir hefðbundna messu í Keflavíkurkirkju verður dagskrá streymt á Facebooksíðum Víkurfrétta og Reykjanesbæjar frá hefðbundinni hátíðardagskrá í skrúðgarðinum og eru íbúar hvattir til að fylgjast með því þótt vissulega sé engum bannað að mæta í skrúðgarðinn. Þar fer fram fánahylling og er það Inga María Ingvarsdóttir fyrrum leikskólastjóri á Tjarnarseli sem dregur fánann að húni. Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri flytur þakkarorð og Karlakór Keflavíkur flytur þjóðsöng Íslands. Jóhann Friðrik Friðriksson forseti bæjarstjórnar flytur setningarræðu og ræða dagsins er í höndum Sveinbjargar Ólafsdóttur hjúkrunarfræðings á HSS. Þá flytur fjallkona hátíðarljóð en það er Salka Lind Reinhardsdóttir nýstúdent sem gegnir því hlutverki.

Allir geta tekið þátt í Þrautaleik fjölskyldunnar og unnið til verðlauna
Skemmtidagskrá verður með nýju sniði í ár. Reykjanesbær, í samstarfi við Skemmtigarðinn, býður upp á frábæran þrautaleik fyrir fjölskyldur í öllum hverfum bæjarins. Það eina sem þarf til að taka þátt er að skrá sig til leiks og vera með síma til að leysa fjölbreyttar þrautir. Allir geta ráðið sínum hraða og tíma, leyst eina þraut eða margar, allt eftir hentisemi hvers og eins. Heppnir þátttakendur verða dregnir út úr öllum hverfum bæjarins og fá þeir skemmtileg verðlaun. Við hvetjum fólk til að missa ekki af þessari skemmtun sem er öllum ókeypis.

Grillum saman og setjum 17. júní fána í glugga
Íbúar eru einnig hvattir til að standa fyrir götugrillum eða hverfagrillum og gera sér glaðan dag í tilefni þjóðhátíðardagsins. Jafnframt eru þeir hvattir til að setja 17.júní fána í glugga hjá sér þannig að fjölskyldur geti farið út og talið hversu marga fána þeir finna, ekki ósvipað og bangsarnir sem hrepptu athygli allra í vor.

Opið í Sundmiðstöðinni og sundlaugarpartý með DJ
Þá hefur sú ánægjulega ákvörðun verið tekin að Sundmiðstöðin verður opin fyrir alla á 17.júní og ættu fjölskyldur því að geta notið þess að fara saman í sund. Til viðbótar verður boðið upp á sundlaugarpartý fyrir nemendur sem voru að ljúka 4.-7. bekk frá kl. 15-17. Þar mun sérstakur DJ sjá um að halda uppi fjörinu.

Grillaðar pylsur og Ingó ásamt Veðurguðum í Fjörheimum
Um kvöldmatarleytið verður pylsupartí í Fjörheimum fyrir krakka sem voru að ljúka 4.-10.bekk og um kvöldið frá kl. 20 hefst skemmtidagskrá fyrir nemendur sem hafa lokið 7.-10. bekk. Þar verður boðið upp á leiki og glæsilegt dansatriði frá Danskompaní. Rúsínan í pylsuendanum er svo skemmtun með Ingó og nokkrum Veðurguðum og eins og allir vita, getur það ekki klikkað.

Frítt í söfnin
Þessu til viðbótar verður frítt í Duus Safnahús en þar opnuðu nýlega glæsilega sumarsýningar byggðasafns og Listasafns Reykjanesbæjar sem enginn má láta framhjá sér fara. Einnig verður opið og ókeypis aðgangur í Rokksafn Íslands í Hljómahöll.

Kaffisala og bingó
Þá verður kaffisala körfuknattleiksdeildanna á sínum stað auk sumarbingós hjá körfuknattleiksdeild Njarðvíkur og um að gera að fá sér gott í gogginn og styðja um leið mikilvægt starf deildanna.

Gleðilega þjóðhátíð!