Þjóðhátíðardeginum fagnað í Reykjanesbæ

Valý Rós Hermannsdóttir í fylgd skáta frá Heiðabúum. Mynd/Víkurfréttir.
Valý Rós Hermannsdóttir í fylgd skáta frá Heiðabúum. Mynd/Víkurfréttir.

Þjóðhátíðardegi Íslendinga var fagnað í Reykjanesbæ 17. júní síðastliðinn. Dagskráin hófst með því að skátar frá Heiðabúum og lúðrasveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar gengu fylktu liði inn í skrúðgarðinn í Keflavík með hátíðarfánann, þann stærsta á Íslandi. Sérstakur fánahyllir dró fánann að húni en til þess er valinn íbúi sem hefur unnið gott starf í þágu samfélagsins. Í ár hlotnaðist sá heiður Sólveigu Þórðardóttur, ljósmyndara en Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri flutti Sólveigu þakkarorð fyrir hönd bæjarstjórnar. Þakkarorðin til Sólveigar má lesa hér.

Karlakór Keflavíkur flutti þjóðsönginn og forseti bæjarstjórnar flutti setningarræðu hátíðarinnar og kom það í hlut Halldóru Fríðu Þorvaldsdóttur. Ræðu hennar má lesa hér.

Að setningarræðu lokinni flutti fjallkona ársins, Valý Rós Hermannsdóttir, nýstúdent Ávarp fjallkonunnar 1956 eftir Jakob Jóhannesson Smára.

Jóhann Smári Sævarsson, óperusöngvari, söngkennari, leikstjóri og stjórnandi var ræðumaður dagsins en ræðu Jóhanns Smára má lesa hér.

Að hátíðardagskrá lokinni tók skemmtidagskrá fyrir yngstu kynslóðina við en þar var boðið upp á hoppukastala, hestateymingu, bubblebolta, Sirkus Ananas, BMX brós, DansKompaní, skemmtilegar fígúrur frá Leikfélagi Keflavíkur,  Bolli og Bjalla úr Stundinni okkar kíktu í heimsókn og DJ Dóra Júlía bauð í danspartý. Ásamt þessu var boðið upp á andlitsmálningu og fjölmarga skemmtilega leiki og stöðvar. Að lokum bauðst ungmennum að fara í Lasertag og Bubblebolta á meðan DJ Dóra Júlía hélt uppi stuðinu.

Skemmtidagskráin var öllum að kostnaðarlausu og gaman að sjá hversu margir lögðu leið sína í skrúðgarðinn.

Framkvæmdaraðilar skemmtidagskrár voru Fimleikadeild Keflavíkur, Team DansKompaní, Unglingaráð körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur, Ungmennaráð Reykjanesbæjar og Unglingaráð og Listasmiðja Fjörheima. Öllum þeim sem lögðu af mörkum til þess að gera þjóðhátíðardaginn sem hátíðlegastan með sínu framlagi eru færðar sérstakar þakkir.

Meðfylgjandi myndir tók Hilmar Bragi fyrir Víkurfréttir en fleiri myndir má sjá á vef þeirra vf.is