50 ár liðin frá vígslu Stapa

Félagsheimilið Stapi í Njarðvík var vígt 23. október 1965. Í dag er því liðin hálf öld síðan vígsla fór fram. Þess verður minnst með afmælishófi í Stapa nk. sunnudag milli kl. 15:00 og 17:00. Bæjarbúum er boðið í kaffisamsæti til þess að halda upp á tímamótin.

Byrjað var á framkvæmdum við Stapa í september árið 1958. Ungmennafélag Njarðvíkur og Kvenfélagið Njarðvík höfðu þá safnað í húsbyggingarsjóð í 9 ár, en aðaltekjulind félaganna voru skemmtanir í Krossinum. Myndað var sameignarfélag um byggingu Stapans og áttu Njarðvíkurhreppur og skátafélagið Víkverjar þar fulltrúa, auk ungmennafélagsins og kvenfélagsins.

Í 70 ára afmælisriti UMFN kemur fram að húsið hafi verið 1300 fermetrar að gólffleti, teiknað af Sigvalda Thordarsyni. „Í því var stór aðalsalur með svölum sem rúmaði allt að 500 gesti, fundarsalur, félagsherbergi og svið með tilheyrandi aðstöðu. Ákveðið var að fara þá leið í smíðinni að semja við iðnaðarmenn í stað þess að fara í útboð og skilaði það lægri byggingarkostnaði. Húsið var því að mestu byggt af heimamönnum og tók smíði þess í heild sjö ár og var kostnaður um 10 milljónir króna.“

Við vígslu félagsheimilisins 23. október 1965 var greint frá því að nafn þess væri Stapi. Stapi er nú einn hluti Hljómahallar, ásamt Rokksafni Íslands og Tónlistarskóla Reykjanesbæjar.

Tónlistarmaðurinn Valdimar mun koma fram í afmælishófinu á sunnudag, ásamt gítarleikara og Hilmar Hafsteinss körfuboltaþjálfari hjá UMFN í áratugi og stjórnarmaður og Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar flytja erindi. Allir velkomnir.

   

Ljósmyndin frá apríl 1960, af Stapa á byggingartíma, er tekin af Facebooksíðunni Keflavík og Keflvíkingar.