Á fjórða þúsund gestir í Reykjanesbæ um helgina

Fulltrúar Keflavíkur og UMFN á Nettómóti.
Fulltrúar Keflavíkur og UMFN á Nettómóti.

Nettómótið í körfuknattleik verður haldið í Reykjanesbæ um næstu helgi. Mótið er fyrir stúlkur og drengi fædda eftir 2001 og mótið í ár er hið fjölmennasta frá upphafi en búist er við hátt í  1300 keppendum og talið er að um 2-3 fylgi hverju barni og því verða á fjórða þúsund gestir í bænum.   Mótið fer fram í öllum íþróttasölum bæjarins og á þessu móti bætist við einn nýr keppnisstaður sem er íþróttasalurinn við Háaleitisskóla á Ásbrú.

Mótið hefst á laugardaginn  klukkan átta um morguninn og lýkur með verðlaunaafhendingu klukkan 15 á sunnudaginn. Gist er í öllum skólum bæjarins og ýmislegt er í boði, bæði fyrir keppendur og fylgdarfólk í bæjarfélaginu. Þar má m.a. nefna, Skessuhellir, Víkingaheima, bíósýningar, ungmennagarðurinn og leiksvæði í Reykjaneshöll. Kvöldvaka verður  á Sunnubraut á laugardagskvöldinu.

Það eru körfuknattleiksdeildirnar í Keflavík og Njarðvík sem sameiginlega standa að Nettómótinu, einu fjölmennasta íþróttamóti sem haldið er,  en fyrsta mótið sem þá hét kókómjólkurmótið var haldið 1993.
Velkomin á Nettómótið 1. og 2. mars.