Ábendingagátt Reykjanesbæjar

Í vetur var tekin upp ný ábendingargátt á heimasíðu Reykjanesbæjar með það að markmiði að stytta og einfalda skilaboðaleið íbúa þegar kemur að ábendingum sem snúa að starfsemi sveitarfélagsins. Vel var tekið í ábendingargáttina og hafa rúmlega 300 ábendingar borist frá því að hún var tekin upp.

Umhverfismiðstöðin fékk góða reynslu á gáttina í vetur þegar ábendingar byrjuðu að berast vegna vetrarþjónustunnar. Ábendingum er flokkað á þann starfsmann sem ber ábyrgð á þeim málaflokki sem ábending snertir og ber viðkomandi ábyrgð á að svara íbúanum og koma ábendingu í viðeigandi farveg. Þegar það snjóaði hvað mest í vetur bárust fjölmargar ábendingar sem flokkaðar voru á starfsfólk Umhverfismiðstöðvarinnar og var auðvelt að kortleggja fljótt og örugglega jafn óðum hvar mesta þörfin var. Það gefur auga leið að vetrarþjónusta er þess eðlis að ekki er hægt að vinna á öllum stöðum samtímis en með ábendingagáttinni er auðvelt að skipuleggja og afgreiða ábendingarnar hratt og vel samhliða því skipulagi sem unnið er eftir.

Reykjanesbær hvetur íbúa að kynna sér ábendingagáttina, skrifa inn ítarlegar ábendingar, með myndum þegar það á við, og hjálpa okkur við að gera bæinn okkar enn betri.

Sjá ábendingagátt hér.

Bærinn okkar – Okkar ábyrgð.