Aðlögunaráætlunin raunhæf og vel unnin

Oddur Jónsson sérfræðingur frá KPMG kynnti aðlögunaráætlunina á aukafundi bæjarstjórnar í dag.
Oddur Jónsson sérfræðingur frá KPMG kynnti aðlögunaráætlunina á aukafundi bæjarstjórnar í dag.

Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga óskaði í dag bæjaryfirvöldum í Reykjanesbæ til hamingju með að vera komin þetta langt með raunhæfa aðgerðaráætlun sem nú er í umræðuferli hjá bæjarstjórn. Aðlögunaráætlunin var kynnt fyrir eftirlitsnefndinni á aukafundi bæjarstjórnar í dag.

Mikil og góð vinna hefur farið fram hjá bæjaryfirvöldum og embættismönnum Reykjanesbæjar með aðstoð sérfræðinga við mótun aðlögunaráætlunar Reykjanesbæjar 2017-2022. Áætlunin fór til fyrri umræðu í bæjarstjórn sl. þriðjudag og var í lok fundar vísað til annarrar umræðu 18. apríl nk.

Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga gerði þá kröfu til Reykjanesbæjar, og annarra sveitarfélaga sem þurftu að hagræða í rekstri, að ná skuldaviðmiði niður fyrir 150% af rekstri, eins og sveitastjórnarlög kveða á um, og að skila raunhæfri aðlögunaráætlun. Í máli nefndarinnar kom fram að hvort tveggja standist hjá Reykjanesbæ og nefndarmenn sjái ekki ástæðu til að fylgjast grannt með framfylgd áætlunarinnar nema frávik verði í ársreikningum. Ef nefndin samþykkir áætlunina skuldbindur Reykjanesbær sig til að fylgja henni mjög stíft eftir en eins og nefndin tók fram er áætlunin það raunhæf að hún gefur svigrúm fyrir áföllum sem kunna að verða á gildistíma hennar.

Aðlögunaráætlunin gerir ráð fyrir að Reykjanesbær verði kominn niður fyrir 150% skuldaviðmiðið í árslok 2022. Það næst með áframhaldandi aðhaldi í rekstri, að samningar náist við kröfuhafa í þeim málum sem enn á eftir að semja um og ef spár um 2,5% íbúafjölgun á ári ná fram að ganga.

Vonir standa til að aðlögunaráætlunin verði samþykkt í bæjarstjórn 18. apríl nk. að undangengnum samningum við kröfuhafa og samþykkt eftirlitsnefndarinnar á áætluninni.

Hér má nálgast nánari upplýsingar um aðlögunaráætlun.