Líf og fjör í Aðventugarðinum

Leikskólabörn að skreyta Aðventugarðinn
Leikskólabörn að skreyta Aðventugarðinn

Eitt af markmiðum Aðventugarðsins er að virkja íbúa til þátttöku og voru leikskólar Reykjanesbæjar hvattir til að taka þátt í að byggja upp Aðventugarðinn. Leikskólabörn bjuggu til skraut og fóru síðan í vettvangsferð til að skreyta tré í Aðventugarðinum. Hverjum leikskóla var úthlutað svæði og fengu börnin frjálsar hendur um hvers kyns skraut þau vildu útbúa. Nú hafa flestir leikskólar lagt sitt af mörkum og skreytt í garðinum og má því sjá fjölbreyttar skreytingar um allan Skrúðgarð. Við hvetjum bæjarbúa eindregið til þess að kíkja í Aðventugarðinn og skoða bæði skemmtilegar og frumlegar skreytingar leikskólabarnanna okkar.

Í leiðinni má taka þátt í jólasveinaratleik Ungmennaráðs Fjörheima í Aðventugarðinum. Ratleikurinn hefst við jólakofana en þar má finna fyrstu vísbendingu sem leiðir þátttakendur um Aðventugarðinn og Skrúðgarðinn. Jólasveinarnir hafa týnt hinum og þessum hlutum sem þeir þurfa á að halda til þess að komast til byggða og þurfa hjálp þátttakenda við að finna þessa hluti.
Á hverjum laugardegi fram að jólum breytist ratleikurinn svo hægt er að taka þátt aftur og aftur.