Afmælissýningar í Duus Safnahúsum

Duus Safnahús
Duus Safnahús

Listasafn Reykjanesbæjar opnar í tilefni 15 ára afmælis safnsins þrjár sýningar í Duus Safnahúsum föstudaginn 1.júní n.k. kl.18.00.  Verkin á sýningunum þremur koma öll úr safneigninni og hefur safnið eignast flest þeirra á þeim 15 árum sem liðið hafa frá formlegri stofnun þess. Verkin eru af margvíslegu tagi, s.s. olíuverk, vatnslitamyndir, skúlptúrar og  grafík og eru eftir hina ýmsu listamenn en þó fyrst og fremst samtímamenn, tæplega 60 listamenn eiga verk á sýningunum. Í Listasalnum er uppistaðan olíuverk og skúlptúrar, í Bíósalnum eru sérstaklega teknar fyrir mannamyndir og gengur sú sýning undir heitinu „Fígúrur“ og  í Stofunni má sjá fjölda vatnslitamynda eftir málarann og heimamanneskjuna Ástu Árnadóttir sem fjölskylda hennar gaf safninu.  Sýningarstjóri allra sýninganna er Inga Þórey Jóhannsdóttir.

Þá opnar Byggðasafn Reykjanesbæjar sýninguna „Hlustað á hafið“ í einum sal Duus Safnahúsa en safnið verður 40 ára síðar á árinu. Sýningin fjallar um náin tengsl sjómanna árabátatímans við sjóinn og fórnir þeirra við að ná í gull hafsins, sem öllu máli skipti fyrir lífsafkomuna.  Sýningarstjóri er Eiríkur Páll Jörundsson.

Menntamálaráðherra Lilja Alfreðsdóttir mun opna allar sýningarnar. Boðið er upp á lifandi tónlist og léttar veitingar.

Sýningarnar eru jafnframt sumarsýningar safnanna og eru opnar til 19. ágúst. Safnið er opið alla daga 12.00-17.00.