- Þjónusta
- Velferð og stuðningur
- Menntun og fræðsla
- Skipulags-, bygginga- og umhverfismál
- Íþróttir og tómstundir
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- Mitt Reykjanes
Akurskóli fagnar 20 ára afmæli nú um helgina og í dag var dagurinn haldinn hátíðlega. Fjöldi gesta lagði leið sína í afmælisveislu skólans, þar á meðal forseti Íslands, frú Halla Tómasdóttir en hún flutti stutt ávarp þar sem hún óskaði skólanum til hamingju með daginn og hvatti börnin, og alla viðstadda, til að vera „riddarar kærleikans“.
Akurskóli var vígður 9. nóvember 2005, aðeins rúmu ári eftir að fyrsti áfangi skólans reis, en fyrstu skóflustungu að byggingu skólans var tekið 20. mars 2004. Þá voru íbúar Innri-Njarðvíkur um 2.900 talsins. Síðan þá hefur byggðin vaxið hratt og búa í dag um 5.200 manns í Innri-Njarðvík og um 24.500 í Reykjanesbæ öllum.
Nafn Akurskóla á rætur að rekja til fyrsta skólans sem reis í byggðarlaginu undir lok 19. aldar. Sá skóli var reistur af fólki sem trúði því að menntun væri lykill að betra lífi – og á þeirri sömu sýn stendur Akurskóli í dag. Skólinn hefur á þessum tveimur áratugum skapað öflugt samfélag þar sem gildi hans, virðing, gleði og velgengni, endurspeglast í öllu starfi. Fjölbreytt skólamenning, samvinna og sköpunarefni hafa verið í forgrunni og nemendur hvattir til að blómstra á eigin forsendum.
Að þessu tilefni færði Reykjanesbær skólanum afmælisgjöf, nokkrar bækur sem nýtast bæði starfsfólki og nemendum. Þar á meðal eru bókin Skólastjórinn eftir Ævar Þór Benediktsson, Litróf kennsluaðferðanna eftir fræðimennina Ingvar Sigurgeirsson, Súsönnu Margréti Gestsdóttur og Svövu Pétursdóttur, og bókaflokkurinn Sjónpróf eftir Svavar Guðmundsson.
Sigurbjörg skólastjóri tók við gjöfinni fyrir hönd skólans.
Reykjanesbær óskar Akurskóla innilega til hamingju með 20 ára afmælið og þakkar fyrir metnaðarfullt og faglegt starf síðustu tvo áratugi. Megi starfið halda áfram að vaxa og dafna um ókomin ár.

Kl. 09:00 – 15:00 virka daga (mán.-fös.)