Alls 2418 nemar skráðir til náms í grunnskólunum

Nemendur í fyrsta bekk prúðbúnir og fullir tilhlökkunar við skólasetningu í Myllubakkaskóla. Ljósmy…
Nemendur í fyrsta bekk prúðbúnir og fullir tilhlökkunar við skólasetningu í Myllubakkaskóla. Ljósmynd: Heba Friðriksdóttir

Fyrsti skóladagurinn í grunnskólum Reykjanesbæjar er í dag.  Um 220 fyrstu bekkingar eru nú að hefja grunnskólanám í fyrsta sinn. Við skólasetningu í gær voru 2418 nemendur skráðir til náms í grunnskólum Reykjanesbæjar. Talan gæti átt eftir að hækka næstu daga.

Flestum nemendum og foreldrum finnst gott að komast aftur í sínar venjur hausts og vetrar þó erfitt getur reynst að kveðja sumarið. Framundan eru arkandi börn um allan bæ með skólatöskur á bakinu og því eru ökumenn beðnir um að sýna aðgát í nágrenni skóla. Reykjanesbæ hefur hengt upp fána í skólahverfum til að minna á skólabyrjun.

Í þessu samhengi er viðeigandi að birta ljóð Vilborgar Dagbjartsdóttur um haustið.

Nú haustar að

Einhverja nóttina koma skógarþrestirnir
að tína reyniber af trjánum
áður en þeir leggja í langferðina yfir hafið,
en það eru ekki þeir sem koma með haustið
það gera lítil börn með skólatöskur.

Vilborg Dagbjartsdóttir