Ánægja íbúa hefur vaxið

Ánægjustig íbúa í Reykjanesbæ hækkaði töluvert milli áranna 2013 og 2014 að því er fram kemur í árlegri þjónustukönnun Capacent Gallup á ánægju íbúa í stærstu sveitarfélögum landsins. Úrtakið var 8010 íbúar í 19 stærstu sveitarfélögunum. Alls 5272 íbúar svöruðu, eða 65,8% úrtaks, þar af 221 í Reykjanesbæ.

Góður árangur í íþróttum

Íbúar í Reykjanesbæ eru sérstaklega ánægðir með aðstöðu til íþróttaiðkana. Sá árangur sem íþróttaiðkendur hafa náð að undanförnu skýrist m.a. af því að aðstaða er góð. Hversu vel hefur gengið í Skólahreysti hjá grunnskólunum í Reykjanesbæ leiddi til þess að 9. riðill keppninnar var haldinn í Toyotahöllinni 19. mars sl. Holtaskóli sigraði riðilinn og Heiðarskóli varð í öðru sæti.

Stefán Bjarkason framkvæmdastjóri íþrótta- og tómstundasviðs er að vonum ánægður með niðurstöðu könnunarinnar enda Reykjanesbær í 3. sæti af þeim 19 sveitarfélögum sem mæld voru. „Það eru aðeins íbúar Seltjarnarness og Vestmannaeyja sem segjast vera ánægðari með íþróttaaðstöðuna en íbúar hér.“

Bættur námsárangur og góður skólabragur

Grunnskóla- og leikskólamál mældust einnig yfir landsmeðalatali og íbúar í Reykjanesbæ eru ánægðir með þá þjónustu sem þar er veitt. Gylfi Jón Gylfason framkvæmdastjóra fræðslusviðs er sérstaklega sáttur við niðurstöðuna en segir jafnframt að hún komi ekki á óvart. „Kennarar hér í bæ hafa tekið höndum saman og unnið meðvitað að því að bæta kennslu á báðum skólastigum. Það kemur fram í bættum námsárangri á sama tíma og skólabragur í öllum okkar skólum er góður. Börnunum líður vel í skólanum og reynt er að koma til móts við þarfir hvers og eins.“

Í svipaðan streng tekur Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs þegar kemur að ánægjustigi með þjónustu við barnafjölskyldur, eldri borgara og fatlað fólk. „Það er ánægjulegt að sjá vaxandi ánægju eldri borgara og barnafjölskyldna með þjónustu sveitarfélagsins og að sveitarfélagið standi jafnfætis eða framar samanburðarsveitarfélögunum varðandi mat þátttakenda á þjónustu við barnafjölskyldur, fólk með fötlun og eldri borgara í þessari könnun".

Tækifæri til að gera betur

Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri segir að kannanir sem þessa beri að taka með fyrirvara. Bæði sé fjöldi svarenda tiltölulega lítill, eða 221 af rúmlega 14 þúsund íbúum, og ekki sé víst að allir skilji spurningarnar eins. „Svörin gefa þó vísbendingar sem rétt er að taka mark á. Það eru alltaf tækifæri til þess að gera betur og mun Reykjanesbær nýta sér þessar niðurstöður til þess.“