Annar áfangi Stapaskóla – Fullbúið íþróttahús og sundlaug

Aðkoma að nýbyggingu
Aðkoma að nýbyggingu

Íslenskir Aðalverktakar og Reykjanesbær hafa undirritað samning  vegna framkvæmda við annan áfanga Stapaskóla, sem er fullbúið íþróttahús með áhorfendasvæði sem tekur 1100 manns í sæti og 25 metra innilaug ásamt útisvæði með heitum pottum.

Við sama tækifæri var undirritaður samningur við VSB Verkfræðistofu ehf. um eftirlit/byggingarstjórn með framkvæmdinni en það eru sömu aðilar og voru með eftirlit á fyrri áfanga. Fullkláraður mun þessi áfangi kosta rúma 2,4 milljarða króna en tilboð Íslenskra aðalverktaka hljóðaði upp á 92% af kostnaðaráætlun.

Með byggingu annars áfanga Stapaskóla fær skólinn ekki aðeins vel búna aðstöðu til íþróttakennslu heldur mun byggingin einnig stórbæta aðstöðu til almennrar íþróttaiðkunar og með tengingu við bókasafnið þjóna íbúum bæjarins sem einskonar hverfismiðstöð.

Við undirritunina voru viðstaddir auk bæjarstjóra, fulltrúar frá ÍAV og VSB, hönnuðir frá Arkís arkitektum, fulltrúar frá Ungmennafélagi Njarðvíkur, bæjarfulltrúar auk starfsfólks innan stjórnsýslu Reykjanesbæjar og Stapaskóla.

Frá vinstri: Fyrirliðar Njarðvíkur í körfuknattleik, Vilborg Jónsdóttir og Logi Gunnarsson, Guðlaugur Helgi Sigurjónsson sviðsstjóri USK, Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri, Sigurður R. Ragnarsson stjórnarformaður ÍAV, Valur Hreggviðsson framkvæmdastjóri ÍAV og Gróa Axelsdóttir skólastjóri Stapaskóla.