- Þjónusta
- Velferð og stuðningur
- Menntun og fræðsla
- Skipulags-, bygginga- og umhverfismál
- Íþróttir og tómstundir
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- Mitt Reykjanes
Mörg tonn af kjötsúpu runnu ljúflega í maga Ljósanæturgesta í gærkvöldi. Súpuveislan hefur verið einn af föstu liðunum í hátíð Ljósanætur frá upphafi og gestum finnst ómissandi að fá matarmikla kjötsúpu á milli þess sem annarra dagskrárliða er notið. Heimatónleikarnir slógu í gegn nú sem endranær og komust færri að en vildu. Allt fór vel fram á þessum þriðja degi Ljósanæturhátíðar.
Einn af vinsælustu viðburður Ljósanætur frá upphafi er Árgangagangan sem farin verður í dag kl. 13:30. Þá hittast árgangarnir við húsnúmer við Hafnargötu sem samsvarar fæðingarári viðkomandi. Yngsta kynslóðin hefur gönguna og marserar niður Hafnargötu í gegnum heilt æviskeið. Þeir eldri bíða og horfa á æskuna renna hjá þar til röðin kemur að þeim að bætast við. Á göngunni í ár verður 1968 árgangurinn heiðursárgangurinn eins og alltaf þegar árgangur stendur á fimmtugu.
Árgangarnir sameinast svo framan við sviðið á hátíðarsvæði við Bakkalág þar sem dagskrá verður í allan dag.
Þeir sem hafa saknað akstur fornbíla niður Hafnargötu geta tekið gleði sína á ný því þeir munu aka að Keflavíkurtúni frá kl. 15:00 ásamt mótorhjólum úr Bifhjólaklúbbnum Erni. Hátindur Ljósanætur verður svo við sviðið á hátíðarsvæði þegar stórtónleikar hefjast kl. 20:30. Þar koma fram Jói P og Króli, Áttan, Stjórnin og Bjartar Guðlaugsson ásamt stórhljómsveit. Undir lok tónleika hefst flugeldasýningin á Berginu sem í framhaldi verður upplýst fyrir veturinn. Þeir allra hörðustu geta skellt sér í gospelmessu í Keflavíkurkirkju að lokinni flugeldasýningu.
Dagskrá ljósanætur er í heild sinni á http://ljosanott.is.

Kl. 09:00 – 15:00 virka daga (mán.-fös.)